Þrjú tilfelli kórónuveiru greind

Líðan þeirra sem greinst hafa með veiruna er sögð vera …
Líðan þeirra sem greinst hafa með veiruna er sögð vera góð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú tilfelli af kórónuveirunni hafa nú verið staðfest hér á landi. Annað og þriðja tilfellið voru staðfest í gær. Báðir einstaklingarnir höfðu verið á skíðum á Ítalíu og komu til landsins á laugardag með flugvélum Icelandair, annar er karlmaður sem kom frá Veróna á Ítalíu en hinn er kona sem kom frá München í Þýskalandi. Um 300 manns eru nú í sóttkví.

Þeir þrír sem greinst hafa með veiruna hér á landi eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Harðari aðgerðir hér

Líðan þeirra sem greindust með veiruna í gær er góð, að því er fram kemur í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, en þau sýna dæmigerð einkenni sjúkdómsins.

„Við teljum nauðsynlegt að stöðva faraldurinn frá byrjun í samræmi við viðbragðsáætlanir sem við höfum haft frá upphafi. Samkvæmt þeim ætluðum við að bregðast hart við þegar fyrstu tilfellin kæmu upp til að stöðva útbreiðsluna sem best,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um aðgerðir stjórnvalda. Þær felast í því að útvíkka áhættusvæði vegna kórónuveirunnar úr fjórum héruðum á Norður-Ítalíu yfir á landið allt. Fólki er ráðið frá því að fara þangað að nauðsynjalausu og allir sem þaðan hafa komið frá því í fyrradag, sama hvaðan og eftir hvaða leiðum, eru beðnir um að fara í sóttkví. Þórólfur segir að Íslendingar hafi með þessu gripið til harðari aðgerða en nágrannaþjóðirnar.

Vika eftir af sóttkvínni

Maður og kona sem nýlega dvöldu í skíðaferð á Ítalíu höfðu í gær verið í sóttkví í viku eftir að konan sýndi flensulík einkenni. Áætla þau að vera í viku til viðbótar í sóttkví. Sýni úr konunni reyndist þó neikvætt. Maðurinn segir að þau hafi ekki getað hitt börn sín síðan þau komu heim en þau dvelja hjá föður barnanna.

Hann segir að m.a. hafi aðrir í fjölskyldunni aðstoðað þau með því að fara út í búð og kaupa í matinn fyrir þau. „Maturinn var settur á tröppurnar fyrir utan. Það er reglan og við förum bara eftir því,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka