Áætla sanngirnisbætur upp á 390-440 milljónir

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur drögin að frumvarpinu fram.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur drögin að frumvarpinu fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt drögum að nýju frumvarpi forsætisráðherra um breytingu á lögum um sanngirnisbætur vegna misgjörða á stofnunum fyrir fötluð börn er áætlað að 390-440 milljónir fari í bætur til 80-90 einstaklinga, en miðað er við meðalbótafjárhæð upp á 4,87 milljónir.

Þetta kemur fram í drögum að frumvarpinu sem birt hafa verið í samráðsgáttinni

Fram kemur í frumvarpsdrögunum að ætlunin sé að ljúka og auðvelda uppgjör sanngirnisbóta, en gert er ráð fyrir að verkefninu verði að fullu lokið fyrir árslok 2023.

Vistheimilanefnd vann skýrslu um þann fjölda vistheimila sem mögulegar bætur gætu náð til og í kjölfar ítarlegrar skýrslu um Kópavogshæli hafa verið greiddar út sanngirnisbætur til vistmanna sem þar voru, auk þess sem bráðabirgðaákvæði heimilaði greiðslu bóta vegna Landakotsskóla. Hins vegar hafa bætur ekki verið greiddar út vegna fjölda annarra vistheimila.

Í frumvarpsdrögunum er meðal annars nefnt að í áfangaskýrslum vistheimilanefndar hafi verið könnuð starfsemi Heyrnaleysingjaskólans 1947—1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965–1984, skólaheimilisins Bjargs 1965–1967, vistheimilisins Silungapolls 1950–1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956–1972, heimavistarskólans að Jaðri 1946–1972, Upptökuheimilis ríkisins 1945–1971, Unglingaheimilis ríkisins 1971–1994 og meðferðarheimilisins í Smáratúni og á Torfastöðum 1979–1994. Taldi vistheimilanefnd sig með þessu hafa lokið þeim störfum sem henni voru falin.

Vistheimilanefnd vann skýrslur um aðbúnað og meðferð á vistheimilum hér …
Vistheimilanefnd vann skýrslur um aðbúnað og meðferð á vistheimilum hér á landi frá miðri síðustu öld fram á tíunda áratuginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í frumvarpsdrögunum segir að fyrri skýrsla búi til grundvöll fyrir önnur heimili enda ljóst að vitað sé að margir hafi mátt sæta illri meðferð. „Ekki er talin ástæða til að leggja í jafn ítarlegar og tímafrekar úttektir á þeim stofnunum sem út af standa og í fyrri málum. Litið er svo á að nægileg vitneskja sé fyrir hendi um tíðaranda, viðhorf, uppbyggingu og starfsemi stofnana og um það sem fór úrskeiðis eða betur mátti fara. Með skýrslum vistheimilanefndar hafi farið fram ákveðið uppgjör við fortíðina og skapast grundvöllur til að taka á aðgengilegri og einfaldari hátt en áður afstöðu til erinda frá þeim sem voru vistuð á barnsaldri á stofnunum fyrir fatlað fólk og telja sig hafa orðið fyrir illri meðferð og ofbeldi í þeirri vistun.“

Segir í frumvarpsdrögunum að „niðurstöður þeirra kannana gáfu augljóslega til kynna að víða hafi verið pottur brotinn við framkvæmd þessara mála af hálfu ríkisins og sveitarfélaga“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert