Fólk fer sér hægar en áður við pantanir á ferðum

Torrevieja. Fólk virðist vera að hugsa hvort það á að …
Torrevieja. Fólk virðist vera að hugsa hvort það á að fara í sólina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðaskrifstofur finna fyrir því að fólk fari sér hægar en áður við ferðabókanir vegna umræðunnar um nýju kórónuveiruna og sjúkdóminn sem hún veldur.

„Það hefur almennt hægst á bókunum og fólk er að hugsa sinn gang. Sjá hvernig þetta þróast,“ segir Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Hann sagði að VITA væri ekki með ferðir til Ítalíu. Boðið var upp á skíðaferðir þangað og svo borgarferð sem hefur verið aflýst. Í boði eru ferðir til Tenerife á Kanaríeyjum og Alicante og fleiri staða á Spáni. Bókanir í þær ferðir hafa gengið vel þótt eftirspurnin hafi heldur róast. Þráinn taldi að fólk ætlaði að bíða átekta og sjá hvernig þetta yrði áður en það ákveður að bóka ferðir í sólina.

„Við höfum fundið fyrir því að það hefur hægst á bókunum,“ sagði Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar. Henni finnst að fólk ætli að bíða og sjá hvernig þetta þróast. Það er engu að síður að skoða ferðir og spyrjast fyrir um þær.

Ekki er greinanlegur munur á áfangastöðum hvað afstöðu fólks varðar. Úrval-Útsýn er ekki lengur með ferðir til Ítalíu. „Það er allt rólegt á Spáni og sólin skín þar,“ sagði Þórunn. Hún taldi fólki óhætt að fara í sólina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert