Gámum hefur verið komið upp fyrir framan hús Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna í Skógarhlíð í Reykjavík. Þeir hafa ekki verið teknir í notkun enn en fyrirhugað er að þar verði meðal annars haldnir blaðamannafundir og tekið á móti öðrum gestum í framtíðinni.
„Hér erum við með mikilvægar stjórnstöðvar. Hluti af sóttvörnum hússins er að geta tekið á móti fólki en ekki inni í húsinu,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Gámarnir verða teknir í notkun um leið og sóttvarnir hússins verða efldar. Á næstu dögum verður meðal annars unnið að því að leggja rafmagn í þá.
„Hér eru framlínuviðbragðsaðilar og við verðum að verja þeirra stjórnstöðvar. Við erum með afskaplega stífar reglur í þessu,“ segir Víðir.