Sóttvarnalæknir ræður nú frá ónauðsynlegum ferðum til Kína, Suður-Kóreu, Írans, Ítalíu og skíðasvæðisins Ischgl í Austurríki. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Skíðasvæðið Ischgl í Austurríki hefur þar með bæst í hóp skilgreindra áhættusvæða vegna kórónuveirunnar COVID-19.
Það þýðir að allir sem hafa verið á skíðasvæðinu Ischgl frá 29. febrúar eru beðnir um að fara í 14 daga sóttkví og tilkynna það til sinnar heilsugæslu. Ef viðkomandi finnur fyrir flensulíkum einkennum á að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.
Allir þeir sem verið hafa á svæðinu frá sama tíma og eru auk þess með einkenni eiga að hafa samband í síma 1700 og fara eftir leiðbeiningum þaðan um að fara í sýnatöku. Þeir sem hafa einkenni eiga að nota grímur og gæta allrar mögulegrar smitvarúðar.