Sömdu um styttingu vinnuviku vaktavinnufólks

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/​Hari

Samkomulag um styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki náðist í gærkvöldi í kjaraviðræðum við ríki og sveitarfélög. Samkomulagið skiptir sköpum í viðræðunum og vonar Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB, að samningar verði undirritaðir áður en verkfallsaðgerðir tæp­lega 18.000 manns BSRB hefjast á mánudag. 

Stíft er fundað í deilunni þessa daga og segir Sonja að aðrir liðið þokist áfram. „Af þeim sem eru hvað stærstir eru launaliðurinn sem er hjá aðildarfélögunum sjálfum og svo er það jöfnun launa milli markaða,“ segir Sonja. 

„Það er mjög gjarnan þannig að hlutirnir geta gerst hratt á lokasprettinum og við bindum miklar vonir við það, að við náum að ljúka þessu áður en verkföll skella á. Við erum að funda stöðugt og reynum að finna lausn,“ bætir hún við.  

Rík­is­lög­reglu­stjóri, sótt­varna­lækn­ir og land­lækn­ir skoruðu í gær á þá sem nú eiga í kjaraviðræðum að leita allra leiða til að enda verk­fallsaðgerðir sem nú standa yfir og að koma í veg fyr­ir fyr­ir­hugaðar aðgerðir. Aðspurð hvort umræða um kórónuveiruna og útbreiðslu hennar hér á landi hafi áhrif á samningaviðræður segir Sonja ekki svo vera, að minnsta kosti af hálfu BSRB. 

„Það hefur ekki staðið á okkur hjá BSRB varðandi samningsvilja, við höfum í þessa ellefu mánuði verið að reyna að ná fram niðurstöðu og gengið afar hægt í því. Við munum eftir sem áður leggja mjög hart að okkur til að klára þetta hratt og vel.“ 

Öllum byggingum Háskóla Íslands lokað komi til verkfalls

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi starfsfólki og nemendum skólans tölvupóst fyrr í dag þar sem fram kom að öllum byggingum háskólans yrði lokað 9. og 10. mars komi til verkfalls, þar með talin eru kennslustofur og fundarherbergi.

Starfsfólk skólans og nemendur sem hafa lykil eða aðgangskort að byggingum munu áfram hafa aðgang en verður ekki heimilt að opna fyrir þeim sem ekki hafa lykil eða aðgangskort. Kennsla í einstökum námskeiðum gæti fallið niður en varðandi upplýsingar um það er vísað á heimasíður einstakra deilda innan háskólans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka