Sprittsalar hafa ekki undan

Handspritt er staðalbúnaður á blaðamannafundum sóttvarnalæknis í samhæfingarmiðstöð almannavarna vegna …
Handspritt er staðalbúnaður á blaðamannafundum sóttvarnalæknis í samhæfingarmiðstöð almannavarna vegna kórónuvírussins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sala á handspritti hefur margfaldast undanfarna daga og vikur. Um leið og tilkynnt var um fyrstu kórónuveirutilfellið hér á landi, sl. föstudag, kláruðust birgðir í mörgum apótekum og verslunum.

Þeir sem framleiða handspritt hér á landi settu aukinn kraft í framleiðsluna og í gær var verið að dreifa spritti í verslanir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

„Við héldum að við hefðum brugðist vel við í febrúar en þá seldum við 40 þúsund brúsa af handspritti sem svarar til meðalsölu á tveimur og hálfu ári. Héldum að kúfurinn væri farinn. Á mánudag fengum við svo pantanir á 27 þúsund brúsum,“ segir Richard Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá hreinlætisfyrirtækinu Mjöll Frigg, sem framleiðir handspritt fyrir íslenska markaðinn. Hann taldi í gær að fyrirtækinu væri að takast að framleiða upp í megnið af pöntunum sem þá lágu fyrir. Eitthvað færi í verslanir og apótek en einnig mikið í heilbrigðisstofnanir.

Birgðir fyrir heilbrigðiskerfið

Mjöll Frigg hefur ekki fengið dælur á handbrúsana. Í staðinn voru settir smellutappar á brúsana sem fyllt hefur verið á í vikunni, eins og er á brúsum með uppþvottalegi. „Það er hörgull á hráefni úti um alla Evrópu. Allir eiga í erfiðleikum með að fá aðföng,“ segir Richard. „Við vorum búin að byggja upp góðan öryggislager fyrir Landspítala, heilsugæslustöðvar, lögreglu og Keflavíkurflugvöll og aðra þá sem eru í fremstu víglínu í þessum málum. Við höldum lager fyrir þá og þær eru allar tryggar enda byrjuðum við á því að stækka þann lager fljótlega í janúar,“ segir Einar Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Rekstrarvörum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka