Alparnir verði skilgreindir áhættusvæði

Þórólfur ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ölmu D. Möller landlækni.
Þórólfur ásamt Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og Ölmu D. Möller landlækni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er að skilgreina öll skíðasvæði í Ölpunum sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar. Hingað til höfðu aðeins Alparnir í Ítalíu og austurríski bærinn Ischgl verið skilgreind áhættusvæði. Hafa þeir sem sjá um símanúmerið 1700 verið upplýstir um að allir sem verið hafi á skíðasvæðum í Ölpunum og séu með einkenni skuli sendir í sýnatöku.

Þetta kom fram á blaðamannafundi í samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð, þar sem Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller landlæknir sátu fyrir svörum.

„Flest ný tilfelli sem eru að greinast í Evrópu og á Norðurlöndunum eru einstaklingar sem hafa verið á ferðalagi á þessum svæðum, kannski ekki sömu svæðum og Íslendingarnir voru á, en þetta eru skíðasvæði í Ölpunum. Það virðist vera einhver sýking sem einstaklingarnir eru að fá þar og bera svo með sér heim,“ sagði Þórólfur.

Hvergi annars staðar skilgreint áhættusvæði

Austurríki hefur hvergi annars staðar en á Íslandi verið skilgreint sem áhættusvæði vegna kórónuveirunnar. Baldur Oddur Baldursson hefur, ásamt 24 manna hópi, aflýst skíðaferð sem áætluð var til Ischgl í Austurríki í næstu viku. Hann segir að við afbókanirnar hafi ferðaþjónustufólk í Austurríki komið af fjöllum varðandi kórónuveirusýkingar á svæðinu og sett sig í samband við austurrísk heilbrigðisyfirvöld sem hafi haldið því fram að Íslendingarnir hljóti að hafa smitast í flugvélinni á leiðinni heim.

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Þorgerður

„Við teljum að það sé nauðsynlegt að taka á þessum málum eins hart og örugglega og mögulegt er strax í byrjun. Ég er í reglulegu sambandi við kollega mína annars staðar á Norðurlöndunum og í Evrópu og þau sýnist mér vera einu til tveimur skrefum á eftir okkur,“ sagði Þórólfur. Þau væru enn að skilgreina nokkur svæði á Norður-Ítalíu þótt augljóst væri að smit væru víðar. „Ég tel að við séum hreinlega á undan.“

Aðspurður hvort útilokað sé að Íslendingarnir, sem komið hafa smitaðir frá Ischgl í gegnum flug frá München í Þýskalandi, hafi smitast um borð í flugvélinni segir Þórólfur það mjög ólíklegt. Hann sé í sambandi við yfirvöld bæði á Ítalíu og í Austurríki, en að vandamálið sé hversu erfitt sé að segja til um nákvæmlega hvar smitin urðu.

„Upplýsingar frá öðrum Evrópulöndum um smit í Ölpunum sýna að það er ekki bara smit í öllu flugi úti um alla Evrópu, heldur virðist vera þarna einhver pottur,“ sagði Þórólfur og bætti Alma því þá við að rannsóknir hefðu sýnt að veiran þrifist vel og dreifðist jafnvel betur í köldu og þurru lofti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka