Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða vegna kórónuveirunnar og því hafa ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveður á um þegar verið gerðar. Þar má nefna áætlanir um vöktun og farsóttagreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum sé beitt.
Á meðfylgjandi mynd má sjá graf sem sýnir áætlaða þróun COVID19 hér á landi. Bláa línan sýnir þróunina ef ekki er gripið til aðgerða. Rauða línan sýnir áætla þróun ef tekið er tillit til þeirra aðgerða sem nú standa yfir. Tilfellin dreifast þá yfir lengri tíma og heilbrigðiskerfið er betur í stakk búið til að bregðast við. Þetta kemur fram í tilkynningu. Eins og sést á grafinu erum við rétt að stíga fyrstu skrefin inn í tímabilið.
Sex ný tilfelli af kórónuveirunni hafa greinst á Íslandi í dag, til viðbótar þeim 37 sem voru staðfest í gær. Alls eru þau nú orðin 43. Búið er að taka um 400 sýni. Tvö af þessum sex tilfellum eru innlend smit, þau fyrstu hér á landi.