Fyrstu innlendu smitin - lýsa yfir neyðarstigi

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra. mbl.is/Arnþór

Sex ný tilfelli af kórónaveirunni hafa greinst á Íslandi í dag, til viðbótar þeim 37 sem voru staðfest í gær. Alls eru þau nú orðin 43. Búið er að taka um 400 sýni. Tvö af þessum sex tilfellum eru innlend smit, þau fyrstu hér á landi. Um er að ræða karl og konu á sextugs- og sjötugsaldri. Þau eru við nokkuð góða heilsu að sögn sóttvarnalæknis.

„Í ljósi þessara upplýsinga, sem við höfum sagt áður frá, þá er fyrirhugað að uppfæra hættustig almannavarna upp í neyðarstig,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi sem fór fram í dag. 

Flest þeirra tilfella sem greindust í dag tengjast einstaklingum sem voru á ferðalagi á skíðasvæðunum á Ítalíu og í Austurríki sem áður hefur verið greint frá.

Hvað er neyðarstig almannavarna?

Athyglisvert að flest ný tilfelli séu að greinast á svipuðum svæðum

„Það er athyglisvert í ljósi þess að flest ný tilfelli sem eru að greinast í Evrópu og hinum Norðurlöndunum eru einstaklingar sem hafa verið á ferðalagi á þessum svæðum; reyndar ekki kannski alveg nákvæmlega sömu svæðunum og Íslendingarnir hafa verið, en þetta eru skíðasvæði í Ölpunum. Og það er greinilegt að það er einhver sýking þar sem einstaklingarnir eru að fá þar og bera síðan með sér heim,“ sagði Þórólfur. 

Hann benti á að símanúmerið 1700 hafi verið upplýst um það að einstaklingar sem eru að koma af skíðum í Ölpunum og eru með einkenni, ekki bara þessum áhættusvæðum sem talað hafi verið um, að þeir verði teknir í sýnatöku. Það sé í skoðun hvort uppfæra eigi áhættusvæðið og útvíkka það til annarra svæða í Ölpunum. Ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um það. Það verði þó gert eins fljótt og auðið er. 

Enginn alvarlega veikur

„Tvö af þessum sex tilfellum sem nú voru greind í dag eru innlend smit. Og eins og við höfum sagt frá áður, þá var það í raun og veru bara tímaspursmál hvenær það myndi gerast. Þetta eru tveir einstaklingar, kona og karl á sextugs- og sjötugsaldri. Og þau eru nú við nokkuð góða heilsu, eins og reyndar allir einstaklingarnir. Það er enginn alvarlega veikur af þessum einstaklingum,“ sagði Þórólfur. 

„Í ljósi þessara upplýsinga, sem við höfum sagt áður frá, þá er fyrirhugað að uppfæra hættustig almannavarna upp í neyðarstig,“ sagði Þórólfur ennfremur. 

Ekki búið að setja á samkomubann en það kemur að því

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði að nú þegar væri búið að setja í gang það ferli sem þurfi til að lýsa formlega yfir neyðarstigi almannavarna.

„Þetta hefur í sjálfu sér engin stór áhrif á almenning. Það er mjög mikilvægt að taka það fram. Þetta er hluti af viðbragðskerfinu. Það eru 150, jafnvel nálægt 200 stofnanir og fyrirtæki sem hafa hlutverki að gegna í framlínu í vörnum við heimsfaraldri. Þetta þýðir það að þau eru að herða á sínum málum, þau eru að herða á sínu skipulagi. Gerðar ítrekaðri kröfur um sóttvarnir og annað slíkt. Þetta þýðir ekki það að við séum að setja á samkomubann, en það er ekki hægt að tala öðruvísi um það að það hlýtur að styttast í þann tímapunkt. Og við munum beita þessu tóli. Samkomubann er sennilega eitt það sterkasta verkfæri sem við höfum í verkfærakistunni til að hægja á útbreiðslunni, og við þurfum að beita því á eins réttan og áhrifaríkan hátt og mögulegt er. Það er ekki komið að því, en það er óumflýjanlegt að við teljum að á einhverjum tímapunkti munum við fara þá leið.“

Þá eru viðkvæmir einstaklingar hvattir til að forðast mannamót. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert