Íhuga lokun Íslendingahótels vegna afbókana

Hótelið er vinsælt hjá Íslendingum en margir hafa afbókað gistingu …
Hótelið er vinsælt hjá Íslendingum en margir hafa afbókað gistingu vegna kórónuveirunnar. Ljósmynd/Aðsend

Guðvarður Gíslason hótel- og veitingamaður hefur ekki farið varhluta af áhrifum kórónuveirunnar á rekstur hans, en hann rekur skíðahótelið Skihotel Speiereck í bænum St. Michael im Lungau í Austurríki og Gamla bíó hér heima á Íslandi. Skíðahótelið keypti hann í desember síðastliðnum ásamt félögum sínum Árna Rúdólfi Rúdólfssyni og Reyni Elvari Kristinssyni og sáu þeir fram á líf og fjör þar um páskana. Eins og staðan er núna er ólíklegt að svo verði.

„Hótelið í Austurríki hefur verið þekkt fyrir að vera heimavöllur Íslendinga og það hafa verið afbókanir undanfarið. Ástæðan er nú ekki hræðsla við veiruna sem slíka, enda hefur ekki komið upp neitt tilfelli á því svæði og fullt að gera í brekkunum. Það er meira það að fólk er ekki tilbúið að fara í viku til útlanda og lenda síðan í tveggja vikna stoppi, þá geturðu alveg farið í þriggja vikna frí í Karabíska hafinu,“ segir Guðvarður kíminn.

Diskótek í brekkunum í Ischgl í gær

Hann segir í raun ekkert vandamál vera á þessu svæði eða á svæðunum í kring. „Ég á vini sem eru í Ischgl og það er hvergi vandamál. Ég fékk sent myndband frá Ischgl í dag [í gær] og þar var bara diskótek úti. Það er enginn skelfingu lostinn í brekkunum. Þetta er svona af því það er tekið svona hart á þessu hérna heima,“ segir Guðvarður, en Ischgl er skilgreint sem áhættusvæði samkvæmt almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og þurfa allir sem hafa fasta búsetu á Íslandi og koma þaðan að fara í 14 daga sóttkví. Nokkur þeirra smita sem komið hafa upp hér á landi hafa verið rakin þangað.

Guðvarði finnst þó vanta upplýsingar um hvaða hótel þetta er sem Íslendingarnir sem hafa smitast voru á í Ischgl. „Það eru Íslendingar þarna og Íslendingar að fara þangað sem vita ekki hvaða hótel þetta er. Mér finnst að það eigi að upplýsa hvar fólkið var. Það er enginn dómur í því að segja hvar fólkið gisti. Það gæti hafa fengið veiruna hvar sem er. En fólk myndi þá kannski varast að vera á þessu svæði.“

Guðvarður bindur vonir við betri tíð í sumar.
Guðvarður bindur vonir við betri tíð í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Í næstu viku verður tekin ákvörðun um það hvort hótelinu þeirra verði hugsanlega lokað tímabundið vegna afbókana „Við eigum von á breskum skólahópum og erum að bíða fram í næstu viku með það. Það er búið að loka skólum á Ítalíu og taka fyrir skólaferðalög í Frakklandi. Við verðum að taka ákvörðun um það í næstu viku hvað verður,“ segir Guðvarður. Hann getur þó ekki tekið einhliða ákvörðun um lokun. „Við þurfum að semja við starfsfólk og fleira, þannig að þetta verður allt gert í samvinnu hvernig sem það verður. Við sjáum ekki ástæðu til að vera með opið fram yfir páska eins og við ætluðum, nema auðvitað allt verði dottið niður, þá bara opnum við rétt fyrir páska og tökum eitthvert páskafjör.“

Líka mikið um afbókanir í Gamla bíói

Guðvarður segir þetta vissulega koma mjög illa við þá félaga fjárhagslega enda þeir nýbúnir að taka við hótelinu. Þeir hafi átt von á ákveðnu tekjuflæði á þessum tíma. „En við vinnum úr þessu eins og hverju öðru biti. Svo kemur auðvitað sumar og vonandi verður allt fallið í ljúfa löð þá og fólk getur farið að labba um grasi grænar brekkur, hjólað og golfað og allt það sem hægt er að gera á þessu svæði,“ segir Guðvarður en ferðamannaiðnaðurinn á svæðinu er ekki minni á sumrin en í skíðavertíðinni. „Við förum bara í það að nýta tímann og ætlum að laga aðeins til, gera þetta aðgengilegra og skemmtilegra hótel en það hefur verið. Við hlökkum bara til að fá einhverja í framtíðinni.“

En það eru ekki bara afbókanir í Austurríki sem Guðvarður finnur fyrir því hann rekur líka Gamla bíó og þar hefur fjölmörgum viðburðum verið aflýst vegna veirunnar. „Það er búið að aflýsa sex viðburðum hjá okkur; árshátíðum, alþjóðlegum kvöldverðum og fleiru.“ Hann segir reksturinn þó sterkan og góðan og hann geti tekið á þessu í einhvern tíma, en það verði ekki hægt til lengdar. „Það gerir það ekkert fyrirtæki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert