Tvö ný innanlandstilfelli af kórónuveirunni voru staðfest nú undir kvöld og eru þau nú orðin fjögur. Samtals hafa því átta smit verið staðfest í dag og smitin á Íslandi orðin 45 talsins. Innanlandssmitin hafa öll tengingu við við fólk sem var á skíðasvæðum á Norður-Ítalíu eða Austurríki. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir staðfesti þetta kvöldfréttum RÚV.
Í dag var lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna smita innanlands en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um samkomubann. Það kemur þó að því fyrr en síðar.
Allar heimsóknir á Landspítala hafa hins vegar verið bannaðar og fjölmörg hjúkrunarheimili hafa gripið til þess sama. Þá hefur starfsstöðvum borgarinnar sem halda halda úti þjónustu og starfsemi fyrir fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma verið lokað.