Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms að stærstum hluta í máli þrotabús EK1923 gegn Sjöstjörnunni í dag. Áður hafði Sjöstjarnan, félag athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, verið dæmt til að greiða þrotabúinu bæði 223 og 21 milljón, auk vaxta, samtals yfir 400 milljónir, en Landsréttur taldi aðeins að greiða ætti lægri upphæðina. Var sömuleiðis felld út kyrrsetning á eignum sem höfðu tengst greiðslu hærri upphæðarinnar.
Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Sjöstjörnunnar, sagði við mbl.is eftir dómsuppkvaðninguna að þetta væri „frábær sigur“.
„Viðskiptin með fasteignina, það er ekki gerð athugasemd við þau, en rift leiguábyrgð upp á 21 milljón og kyrrsetningarhluti staðfestur væntanlega út af því, en að öðru leyti er þetta frábær niðurstaða fyrir minn skjólstæðing,“ sagði Heiðar.
Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923, sagði að alltaf væri vitað hvernig niðurstaðan með lægri greiðsluna yrði. „En niðurstaðan varðandi stærri kröfuna kemur á óvart miðað við hvað héraðsdómur var afdráttarlaus. Er að skoða þessa niðurstöðu, en sýnist allar líkur á því að maður sæki um áfrýjunarleyfi [til Hæstaréttar]. Þetta er princip sem þarf að reyna á.“
Um er að ræða stærsta riftunarmálið í tengslum við gjaldþrot EK1923, sem áður var heildsalan Eggert Kristjánsson ehf., en þar er tekist á um 223 milljónir og 21 milljón sem Sveinn Andri vildi fá frá félaginu Sjöstjörnunni. Er þetta eitt af nokkrum málum sem tengjast skiptunum, en það langstærsta.
Héraðsdómur dæmdi í október 2018 að rifta bæri greiðslunum, en uppreiknaðar með vöxtum numu þær þá um 400 milljónum og hafa hækkað eitthvað á þeim 16 mánuðum sem liðnir eru síðan.
Hærri upphæðin sem deilt er um, 223 milljónirnar, tengist sölunni á heildsölunni til Sjöstjörnunnar, eða þeim hluta sem snertir fasteignina Skútuvog 3, en fyrri eigendur EK1923 höfðu keypt þá eign með það fyrir augum að blása til frekari sóknar með reksturinn. Samkvæmt kaupsamningi frá 29. desember 2013 var heildsalan seld fyrir 270 milljónir, „með manni og mús“ eins og það var orðað við aðalmeðferð málsins, meðal annars fyrrnefndri eign, sem þó var talsvert veðsett.
Átti salan að fara í gegn 1. janúar, en slíkt er meðal annars hagstætt í skattalegu tilliti. Hins vegar höfðu menn komist að því að vegna breytingar á stimpilgjöldum þau áramót myndi það auka umtalsvert kostnað kaupanda. Var því farið þess á leit við seljendur að Skútuvogurinn væri seldur fyrir áramót. Tveir af fyrrverandi eigendum heildsölunnar báru vitni um að það hafi verið samþykkt, enda var tiltekið skaðleysi fyrir seljendur og var litið á þetta sem greiðasemi við kaupendur.
Síðar árið 2014 var svo gerð skiptingaráætlun og er það í raun hún sem málið snýst um. Var deilt um hvort kaupsamningurinn eða skipingaráætlunin gilti, en Sveinn Andri taldi að með henni hafi Skútuvogur 3 verið færður yfir á Sjöstjörnuna. Hafnaði hann skýringum verjanda Skúla að kaupsamningurinn hafi verið málamyndargerningur og að athafnir og hátterni í kjölfar kaupsamningsins sýni að gengið var út frá því sem í skiptingaráætluninni kom fram.
Sveinn Andri sagði hins vegar að skiptingaráætlunin hefði ekki verið klár fyrr en eftir að Sjöstjarnan hefði tekið lán út á Skútuvoginn sem og gert leigusamning við EK1923 og með því væri alveg skýrt að Sjöstjarnan horfði svo á að félagið væri orðinn eigandi samkvæmt kaupsamningi.
Lægri upphæðin er til komin vegna leiguábyrgðar. Eftir að Sjöstjarnan tók við Skútuvogi 3 var gerður leigusamningur við heildsöluna, en rúmlega ári síðar keypti fasteignafélagið Reitir Skútuvog 3 af Sjöstjörnunni. Var kaupverðið 670 milljónir, en Sjöstjarnan hafði keypt eignina á 475 milljónir. Gerðu Reitir einnig leigusamning við heildsöluna, en farið var fram á bankaábyrgð til tryggingar. Fór það svo að Sjöstjarnan greiddi upphæðina, tæplega 21 milljón, inn á læstan reikning í Íslandsbanka sem var handveðsettur sem trygging. Jafnframt hafði Íslandsbanki tekið allsherjarveð í innistæðunni vegna skulda heildsölunnar og mátti félagið ekki taka fjármunina út af reikningnum.
Hálfu ári síðar var undirritað samkomulag um leigulok, eða í mars 2016. Óskaði þá Guðmundur Hjaltason, þáverandi framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar, eftir því að bankinn myndi greiða upphæðina til Sjöstjörnunnar og staðfesti Skúli þann gjörning við bankann og fór greiðslan til Sjöstjörnunnar. Eftir gjaldþrot heildsölunnar fór skiptastjóri fram á endurgreiðslu upphæðarinnar, en ekki var orðið við því. Kærði skiptastjóri þetta atriði meðal annars til héraðssaksóknara sem ákærði Skúla og Guðmund vegna þess í nóvember.
Að lokum var deilt um kyrrsetningu á eignum Sjöstjörnunnar á nokkrum fasteignum að beiðni skiptastjórans vegna þeirra fjármuna sem eru undir. Sagði hann Sjöstjörnuna annars vera eignalaust félag ef frá væru taldar þessar kyrrsettu eignir eftir að Skúli hafi fengið greiddar 375 milljónir í arð.
Landsréttur felldi út kyrrsetningu á tveimur fasteignum sem eru í eigu Skúla, en staðfesti kyrrsetningu á öðrum tveimur eignum sem tengjast greiðslu á lægri upphæðinni.