Skúli lagði Svein Andra í stærsta málinu

Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart …
Skúli Gunnar Sigfússon og Sveinn Andri Sveinsson hafa tekist hart á í tengslum við uppgjör á þrotabúi EK1923. Skúli lagði Svein Andra í dag í Landsrétti þegar kom að stærsta málinu, en Sveinn Andri ætlar að sækja um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar. Samsett mynd

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms að stærstum hluta í máli þrotabús EK1923 gegn Sjöstjörnunni í dag. Áður hafði Sjöstjarnan, félag athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar, verið dæmt til að greiða þrotabúinu bæði 223 og 21 milljón, auk vaxta, samtals yfir 400 milljónir, en Landsréttur taldi aðeins að greiða ætti lægri upphæðina. Var sömuleiðis felld út kyrrsetning á eignum sem höfðu tengst greiðslu hærri upphæðarinnar.

Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Sjöstjörnunnar, sagði við mbl.is eftir dómsuppkvaðninguna að þetta væri „frábær sigur“.

„Viðskiptin með fasteignina, það er ekki gerð athugasemd við þau, en rift leiguábyrgð upp á 21 milljón og kyrrsetningarhluti staðfestur væntanlega út af því, en að öðru leyti er þetta frábær niðurstaða fyrir minn skjólstæðing,“ sagði Heiðar.

Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri EK1923, sagði að alltaf væri vitað hvernig niðurstaðan með lægri greiðsluna yrði. „En niðurstaðan varðandi stærri kröfuna kemur á óvart miðað við hvað héraðsdómur var afdráttarlaus. Er að skoða þessa niðurstöðu, en sýnist allar líkur á því að maður sæki um áfrýjunarleyfi [til Hæstaréttar]. Þetta er princip sem þarf að reyna á.“

Um er að ræða stærsta rift­un­ar­málið í tengsl­um við gjaldþrot EK1923, sem áður var heild­sal­an Eggert Kristjáns­son ehf., en þar er tek­ist á um 223 millj­ón­ir og 21 millj­ón sem Sveinn Andri vildi fá frá fé­lag­inu Sjö­stjörn­unni. Er þetta eitt af nokkr­um mál­um sem tengj­ast skipt­un­um, en það langstærsta.

Héraðsdóm­ur dæmdi í októ­ber 2018 að rifta bæri greiðsl­un­um, en upp­reiknaðar með vöxt­um numu þær þá um 400 millj­ón­um og hafa hækkað eitt­hvað á þeim 16 mánuðum sem liðnir eru síðan.

Hærri upp­hæðin sem deilt er um, 223 millj­ón­irn­ar, teng­ist söl­unni á heild­söl­unni til Sjö­stjörn­unn­ar, eða þeim hluta sem snert­ir fasteignina Skútu­vog 3, en fyrri eigendur EK1923 höfðu keypt þá eign með það fyrir augum að blása til frekari sóknar með reksturinn. Sam­kvæmt kaup­samn­ingi frá 29. des­em­ber 2013 var heild­sal­an seld fyr­ir 270 millj­ón­ir, „með manni og mús“ eins og það var orðað við aðalmeðferð málsins, meðal ann­ars fyrr­nefndri eign, sem þó var tals­vert veðsett.

Átti sal­an að fara í gegn 1. janú­ar, en slíkt er meðal ann­ars hag­stætt í skatta­legu til­liti. Hins veg­ar höfðu menn kom­ist að því að vegna breyt­ing­ar á stimp­il­gjöld­um þau ára­mót myndi það auka um­tals­vert kostnað kaup­anda. Var því farið þess á leit við selj­end­ur að Skútu­vog­ur­inn væri seld­ur fyr­ir ára­mót. Tveir af fyrr­ver­andi eig­end­um heild­söl­unn­ar báru vitni um að það hafi verið samþykkt, enda var til­tekið skaðleysi fyr­ir selj­end­ur og var litið á þetta sem greiðasemi við kaup­end­ur.

Síðar árið 2014 var svo gerð skipt­ingaráætl­un og er það í raun hún sem málið snýst um. Var deilt um hvort kaup­samn­ing­ur­inn eða skip­ingaráætl­un­in gilti, en Sveinn Andri taldi að með henni hafi Skútu­vog­ur 3 verið færður yfir á Sjö­stjörn­una. Hafnaði hann skýr­ing­um verjanda Skúla að kaup­samn­ing­ur­inn hafi verið mála­mynd­ar­gern­ing­ur og að at­hafn­ir og hátt­erni í kjöl­far kaup­samn­ings­ins sýni að gengið var út frá því sem í skipt­ingaráætl­un­inni kom fram.

Sveinn Andri sagði hins veg­ar að skipt­ingaráætl­un­in hefði ekki verið klár fyrr en eft­ir að Sjöstjarn­an hefði tekið lán út á Skútu­vog­inn sem og gert leigu­samn­ing við EK1923 og með því væri al­veg skýrt að Sjöstjarn­an horfði svo á að fé­lagið væri orðinn eig­andi sam­kvæmt kaup­samn­ingi.

Lægri upp­hæðin er til kom­in vegna leigu­ábyrgðar. Eft­ir að Sjöstjarn­an tók við Skútu­vogi 3 var gerður leigu­samn­ing­ur við heild­söl­una, en rúm­lega ári síðar keypti fast­eigna­fé­lagið Reit­ir Skútu­vog 3 af Sjö­stjörn­unni. Var kaup­verðið 670 millj­ón­ir, en Sjöstjarn­an hafði keypt eign­ina á 475 millj­ón­ir. Gerðu Reit­ir einnig leigu­samn­ing við heild­söl­una, en farið var fram á banka­ábyrgð til trygg­ing­ar. Fór það svo að Sjöstjarn­an greiddi upp­hæðina, tæp­lega 21 millj­ón, inn á læst­an reikn­ing í Íslands­banka sem var hand­veðsett­ur sem trygg­ing. Jafn­framt hafði Íslands­banki tekið alls­herj­ar­veð í inni­stæðunni vegna skulda heild­söl­unn­ar og mátti fé­lagið ekki taka fjár­mun­ina út af reikn­ingn­um.

Hálfu ári síðar var und­ir­ritað sam­komu­lag um leigu­lok, eða í mars 2016. Óskaði þá Guðmund­ur Hjalta­son, þáver­andi fram­kvæmda­stjóri Sjö­stjörn­unn­ar, eft­ir því að bank­inn myndi greiða upp­hæðina til Sjö­stjörn­unn­ar og staðfesti Skúli þann gjörn­ing við bank­ann og fór greiðslan til Sjö­stjörn­unn­ar. Eft­ir gjaldþrot heild­söl­unn­ar fór skipta­stjóri fram á end­ur­greiðslu upp­hæðar­inn­ar, en ekki var orðið við því. Kærði skipta­stjóri þetta atriði meðal ann­ars til héraðssak­sókn­ara sem ákærði Skúla og Guðmund vegna þess í nóv­em­ber. 

Að lok­um var deilt um kyrr­setn­ingu á eign­um Sjö­stjörn­unn­ar á nokkr­um fast­eign­um að beiðni skipta­stjór­ans vegna þeirra fjár­muna sem eru und­ir. Sagði hann Sjö­stjörn­una ann­ars vera eigna­laust fé­lag ef frá væru tald­ar þess­ar kyrr­settu eign­ir eft­ir að Skúli hafi fengið greidd­ar 375 millj­ón­ir í arð.

Landsréttur felldi út kyrrsetningu á tveimur fasteignum sem eru í eigu Skúla, en staðfesti kyrrsetningu á öðrum tveimur eignum sem tengjast greiðslu á lægri upphæðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert