Vinnuvika vaktavinnufólks getur styst úr 40 stundum í allt niður í 32, samkvæmt samkomulagi sem var undirritað á miðvikudagskvöld í kjaraviðræðum BSRB við ríki og sveitarfélög.
Fram kemur í tilkynningu frá BSRB að samkomulagið sé gert með fyrirvara um að samkomulag náist um önnur óleyst mál við samningsborðið. Stíft er fundað í deilunni en verkfallsaðgerðir tæplega 18.000 manns BSRB hefjast á mánudag.
Áður hafði náðst samkomulag um styttingu vinnuvikunnar í dagvinnu í allt niður í 36 stundir.
„Stytting vinnuvikunnar án launaskerðingar með þessum hætti verða mestu vinnutímabreytingar á íslenskum vinnumarkaði í nær hálfa öld. Með möguleikum á aukinni styttingu hjá vaktavinnufólki er viðurkennd sú krafa BSRB til marga ára að vinnuvika vaktavinnufólks verði styttri en vinnuvika þeirra sem eingöngu vinna í dagvinnu,“ segir á vef BSRB.
Þar segir enn fremur að BSRB hafi til margra ára gert kröfu um að viðurkennt verði að 80% starf í vaktavinnu jafngildi 100% starfi í dagvinnu. Raunin sé sú að þorri starfsmanna í fjölmennum stéttum treysti sér ekki til að vinna í hærra starfshlutfalli vegna álags sem fylgi vaktavinnu.
„Útfærslan á styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki verður kynnt í smáatriðum þegar kjarasamningar hafa náðst, en í stuttu máli má segja að verið sé að umbreyta verðmætum sem þegar eru til staðar í launamyndun. Búinn er til hvati til að vinna fjölbreyttar vaktir með hliðsjón af öryggi, heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs,“ segir á vef BSRB.
Þar segir að grunnstyttingin verði úr 40 stundum í 36, eins og hjá dagvinnufólki, en hægt verði að stytta vinnuvikuna enn frekar hjá vaktavinnufólki. Það mun einkum eiga við þá sem vinna kvöld-, nætur- og helgarvaktir og geta þeir hópar fengið styttingu allt niður í 32 tíma.