Sex ný smit af kórónuveirunni hafa greinst síðan í gær. Þrjú þeirra eru innlend og má rekja til einstaklinga sem voru á skilgreindum hættusvæðum erlendis. Fjöldi smitaðra á Íslandi er því 55, þar af er um að ræða 10 innanlandssmit. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
Í langflestum tilfellum má rekja smitin til einstaklinga sem voru í skíðaferðum á Norður-Ítalíu eða Austurríki en eitt smit kom upp í einstaklingi sem hafði verið á ferðalagi um Asíu, að því er fram kom á blaðamannafundi almannavarna vegna kórónuveiru. Um 500 sýni hafa verið rannsökuð.
Enginn þessara einstaklinga er mikið veikur og aðeins tveir hafa farið inn á sjúkrahús, ekki vegna veikindanna sjálfra heldur vegna aðstæðna og til rannsókna. Flestir hafa fengið væg einkenni. Tæplega 500 manns eru nú í sóttkví hér á landi.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ánægjulegt að ekki sé um að ræða frekari útbreiðslu hér á landi. Þetta sé það sama og er að gerast á hinum Norðurlöndunum þar sem flest smitin eru rakin til Norður-Ítalíu.