15 milljónum króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnar verður veitt til að standa að alþjóðlegri ráðstefnu samtaka sem berjast gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni á Íslandi 2021. Ríkisstjórnin samþykkti þetta á fundi sínum á föstudag.
Skipuleggjendum þótti Ísland kjörin staðsetning, meðal annars með vísan til lýðræðis og friðar og til vel heppnaðrar #metoo-ráðstefnu síðastliðið haust. Slíkur fundur var haldinn í Brighton á Englandi árið 1996, eða einmitt ári eftir Peking-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
Borgarstjórinn í Reykjavík hefur boðað að Reykjavíkurborg muni einnig leggja til framlag þannig að hún verður haldin í samstarfi ríkis og borgar. Ráðstefnan verður haldin í Hörpu 6.–8. maí 2021.
Forsætisráðherra hugðist halda ræðu á þrjátíu ára afmæli Stígamóta í dag og greina frá þessu. Afmælishátíðinni var frestað vegna kórónuveiru.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.