Metralangur ormur fannst á skrifstofu CCP

Ormurinn Valdimar.
Ormurinn Valdimar. Skjáskot/Dan Crone

Starfsmönnum tölvuleikjaframleiðandans CCP brá heldur betur í brún á dögunum þegar hreinsa átti fiskabúr fyrirtækisins. Í ljós kom að gríðarstór ormur hefur um árabil dvalið í búrinu starfsmönnum að óvörum.

Dan Crone, framleiðandi hjá CCP, deilir myndbandi af óværunni á Twitter. CCP stendur nú í flutningum, en til stendur að fyrirtækið flytji höfuðstöðvar sínar af Granda í Reykjavík yfir í hið nýja hús Grósku í Vatnsmýri. Í samtali við mbl.is segir Dan að ormurinn hafi komið í ljós þegar verið var að undirbúa flutning fiskabúrsins með tilheyrandi hreinsun. Kvikindið hefur fengið nafnið Valdimar.

„Við höldum að ormurinn hafi sennilega verið þarna í alla vega átta ár því það var síðast þá sem einhverju var bætt við búrið,“ segir Dan. Fiskabúrið sem um ræðir er sennilega eitt það stærsta á Íslandi og því gat ormurinn athafnað sig án þess að nokkur yrði hans var í öll þessi ár. „Það hefur verið talað um að fiskunum í búrinu hafi fækkað eitthvað síðustu árin, og nú er sennilega komin skýring á því,“ segir Dan sem telur líklegast að ormurinn hafi borist hingað til lands með kóralrifjum sem eru í búrinu og síðan fengið að vaxa og dafna óáreittur.

Í umræðum sem sköpuðust á Twitter í kjölfarið var því haldið fram að ormurinn hefði horfið sjónum starfsmanna og léki nú lausum hala einhvers staðar á skrifstofum fyrirtækisins. Það var þó grín, segir Dan. Ormurinn sé undir eftirliti í búrinu. „En hann gæti sennilega ekki lifað lengi hér á landi.“

Til stendur að taka nýjar höfuðstöðvar CCP í notkun í apríl. Spurður hvort starfsmenn séu búnir að missa áhugann á að halda skrautfiska í höfuðstöðvunum, segir Dan svo ekki vera. „Ég held að flestir vilji enn halda í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert