Íslendingar í sóttkví á herspítala í Víetnam

Íslendingarnir á meðan allt lék í lyndi, stödd í siglingu …
Íslendingarnir á meðan allt lék í lyndi, stödd í siglingu á ánni Mekong. Til vinstri eru þau Benedikt og Sigrún en til hægri Þóra Valný og Júlíus. Ljósmynd/Aðsend

Fjórir Íslendingar sem eru á ferðalagi um Víetnam sæta nú sóttkví við heldur óspennandi aðstæður þar í landi. Sóttkvíin fer nefnilega fram inni á gömlum herspítala þar sem rimlar eru fyrir gluggum, hermenn á hverju strái og hreinlætisaðstaðan svo bágborin að Íslendingarnir þurftu að krefjast þess ítrekað að fá sápu á baðherbergi spítalans. 

Um er að ræða tvö pör, þau Þóru Valnýju Yngvadóttur og Júlíus Ingólfsson annars vegar og Benedikt Sigurjónsson og Sigrúnu Vikar hins vegar. Þau höfðu ferðast saman um Víetnam í um tíu daga þegar þessar óvenjulegu aðstæður komu upp og var þeim skipað að fara í sóttkví í dag sem mun að öllum líkindum ná yfir fjórtán daga. Ekkert þeirra finnur fyrir einkennum kórónuveirunnar og hefur enginn tekið úr þeim sýni.

Ferðalagið átti að vera um átján dagar og fór hópurinn saman í siglingu um Hanoi-flóann en það er afar vinsælt og sigla hundruð báta þar á degi hverjum. Á bátnum sem fjórmenningarnir voru á voru um tuttugu manns og vildi ekki betur til en svo að tveir af þeim sem þar voru höfðu sýkst af kórónuveirunni. Um var að ræða tvo Englendinga sem íslenski hópurinn hafði lítil afskipti af. 

Eins og sjá má eru rimlar fyrir gluggunum. Þóra segir …
Eins og sjá má eru rimlar fyrir gluggunum. Þóra segir rúmin ágæt en þau fengu enga kodda. Ljósmynd/Aðsend

Veggir klæddir gaddavír

„Hluti af þessu ævintýraferðalagi var að fara í tveggja daga siglingu um Hanoi-flóann, frá fimmta til sjöunda mars, og það var algjörlega frábært. Svo komum við úr siglingunni á laugardaginn og þá förum við beint í innanlandsflug frá höfuðborginni niður til Saigon. Við erum búin að vera þar allan laugardaginn og allan daginn í gær vorum við í skoðunarferð og svo fórum við í skoðunarferð í morgun. Klukkan tíu í morgun er hringt í fararstjórann okkar og hann látinn vita um það að við eigum að koma í heilsuskoðun vegna þess að það var eitthvert vandamál með einhvern á skipinu en hann vildi til að byrja með meina að það hefði verið á öðru skipi svo við vorum framan af mjög róleg,“ segir Þóra sem ræðir við blaðamann í gegnum myndsímtal og er augljóst af því að aðstæður eru sannarlega ekki með besta móti.

„Við förum af þessum túristastað þar sem við vorum að skoða en við áttum flug frá Saigon niður á litla paradísareyju þar sem við ætluðum að vera í viku í rólegheitum. Flugið átti að vera klukkan hálftvö í dag og þetta var klukkan tíu. Framan af vorum við bara nokkuð róleg því hann sagði að þetta væri bara einhver skoðun. Svo var eitthvað farið að rúnta hérna um og það endar með því að það er keyrt hérna inn á þessa herstöð. Hérna eru veggir með gaddavír og annað þvíumlíkt svo við fórum að grínast með það að héðan kæmumst við nú aldrei aftur.“

Hreinlætisaðstaðan er að sögn Þóru út í hött en Íslendingarnir …
Hreinlætisaðstaðan er að sögn Þóru út í hött en Íslendingarnir þurftu að margbiðja um sápu. Ljósmynd/Aðsend

Rimlar fyrir gluggum og engin loftkæling

Þá kemur læknir í hlífðargalla til þeirra ásamt konu í öðrum eins hlífðarfatnaði. Hún réttir fjórmenningunum pakka með pínulitlu handklæði, tannbursta, tannkremi, sængurverasetti og flugnaneti.

„Þá sögðum við hvert við annað: „Er þetta ekki það sem kallast verið-velkomin-pakki?“ og þá rann þetta upp fyrir okkur. Svo byrjuðu þeir að spyrja okkur út í ýmislegt um ferðaplönin okkar og vildu fá hin og þessi skjöl hjá okkur. Við vorum alltaf að bíða eftir því að við fengjum að fara. Við fengum mjög takmarkaðar upplýsingar. Svo loksins kemur þessi læknir og segir okkur frá því að á skipinu sem við vorum á á Hanoi-flóa hafi verið tveir Englendingar sem voru sýktir. Okkur var gefin smávon þegar okkur var sagt að við hefðum ekki verið á sömu hæð og þeir í skipinu en svo var okkur tjáð að það breytti engu,“ segir Þóra, sem er mjög jákvæð miðað við aðstæður, og hlær. 

„Þegar klukkan var að verða tvö þá kom loks læknirinn og tilkynnti okkur að við þyrftum að vera hérna í fjórtán daga í sóttkví. Við erum þá inni á herspítalanum sem er gamall herspítali sem er greinilega verið að gera upp fyrir þetta. Hér er ekki neitt til neins og það eru rimlar fyrir öllum gluggum, sem gerir fangelsisstemninguna öflugri. Svo er engin loftkæling en úti er um 36 stiga hiti. Við erum bara búin að vera eins og soðnar gulrætur í potti í allan dag en það er víst einhver kenning um það að það sé vænlegt að halda hitastiginu í sóttkví svolítið háu vegna þess að það auki líkurnar á að veiran lifi ekki.“

Fólk ráfandi á milli herbergja

Þegar Íslendingarnir komu á staðinn voru engir aðrir „gestir“ á spítalanum en seinni partinn fór fólk að streyma í önnur herbergi. Það var þá fólk sem hafði verið með Englendingunum í flugi sem og fólk sem hafði verið í hinni örlagaríku bátsferð. 

„Svo var fólk ráfandi á milli herbergja, spjallandi við alla. Það myndaðist einhver svona heimavistarstemning og þá fer maður að velta fyrir sér hvort þetta sé vænlegt í sóttkví, allir ráfandi á milli herbergja.“

Íslendingarnir biðu svo tímunum saman eftir því að fá mat og þá var um að ræða hrísgrjón, einn kjúklingavæng á mann og örlítið af núðlum.

„Þannig að þetta mun væntanlega hafa jákvæð áhrif á holdafarið,“ segir Þóra, sem á auðvelt með að benda á spaugilegar hliðar á þessum erfiðu aðstæðum. 

Hér má sjá ganginn á herspítalanum en rimlar eru fyrir …
Hér má sjá ganginn á herspítalanum en rimlar eru fyrir hurðum, rétt eins og gluggum. Ljósmynd/Aðsend

Hreinlætisaðstaðan „út í hött“

Hópurinn hefur óskað eftir því að fá að sæta sóttkví á öðrum stað en það hefur engu skilað enn sem komið er. 

„Við vonumst til þess að við komumst héðan út og það sé hægt að komast í einhverjar betri aðstæður. Hreinlætisaðstaðan er alveg úti í hött. Aðalmálið á Íslandi er að þvo sér um hendurnar en hér er engin sápa á baðherberginu. Við vorum búin að margbiðja um sápu á baðherbergið áður en hún kom loks. Þetta er vægast sagt búið að vera sérkennilegt.“

Spurð hvort þau hafi ekki haft neitt val um að sleppa því að fara í sóttkví segir Þóra:

„Á einhverjum tímapunkti spurði ég hvað þeir myndu gera ef ég myndi bara neita. Þá horfði læknirinn á mig eins og hann skildi ekki alveg hugmyndina og sagði við mig að þá stefndi ég lífi fjölda manns í hættu og fleira í þeim dúr.“

Úti við er heldur óspennandi um að litast.
Úti við er heldur óspennandi um að litast. Ljósmynd/Aðsend

Skömmuð af hermönnum

Íslendingarnir hafa leyft sér að fara í stutta göngutúra fyrir utan spítalann en það er ekki vel séð og skömmuðu hermenn Benedikt og Sigrúnu þegar þau litu örlítið út fyrir spítalann í dag. 

Spurð hvort þau öfundi Íslendinga sem fá að sæta sóttkví heima jánkar Þóra því.

„Ég vildi gjarnan vera heima. Það væri mun betra. Það er auðvitað alltaf falin ákveðin hætta í því að ferðast en það eru hundrað milljónir manns í þessu landi og það eru einhverjir 30 sýktir, þeir greindu einhverja ellefu eða fjórtán ferðamenn í vikunni og við enduðum á skipi með tveimur af þessum fjórtán. Ég held að það séu meiri líkur á að vinna í lottó.“

Hópurinn átti bókað flug heim næsta mánudag og þau búast því við að missa af fluginu heim ásamt sjö daga slökun sem þau höfðu skipulagt. 

„Við vorum búin að skipuleggja svona tíu daga ævintýraferð þar sem við ætluðum að fara út um allt og fara svo í algjöra slökun á ströndinni. Slökunarvikan átti að hefjast í dag á þessari paradísareyju, Phú Quốc, og svo ætluðum við að fljúga heim næsta mánudag.“

Klístruð en einkennalaus

Fjórmenningarnir eru ekki búnir að taka ákvörðun um það hvort þau muni halda áfram að ferðast eftir að vistinni á herspítalanum lýkur. 

„Við erum eiginlega ekkert byrjuð að ræða það. Við tökum bara einn dag í einu.“

Spurð hvort þau finni fyrir einhverjum einkennum kórónuveiru segir Þóra að þeim sé aðallega heitt og hin þrjú taka undir það.

„Við erum líka frekar klístruð en við erum algjörlega einkennalaus. Það er ekki búið að taka úr okkur nein sýni og læknirinn skoðaði okkur ekki neitt. Hann spurði okkur bara alls konar spurninga, jafnvel um það hvar við sátum í fluginu en samt vorum við ekkert í fluginu með þessum Englendingi. Við höfum fengið alls konar skrýtnar spurningar og upplýsingar sem koma málinu ekkert við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert