„Mögulega erum við farin að sjá til lands“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir samninganefnd Eflingar í viðræðum …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir samninganefnd Eflingar í viðræðum við borgina „mögulega farna að sjá til lands“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá sveitarfélögum utan Reykjavíkur hefst á hádegi. Flestir sem fara í verkfall starfa hjá Kópavogsbæ. Bætast þeir í hóp nærri 2.000 félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg sem hafa verið í ótímabundnu verkfalli sem hófst á miðnætti 17. febrúar. 

Efl­ing og Reykja­vík­ur­borg gerðu hlé á samn­ingaviðræðum sín­um rétt fyr­ir klukk­an þrjú í nótt. Fund­ur þeirra hafði staðið yfir frá því klukk­an 14 í gær. Boðað hefur verið til nýs fundar klukkan 13 í dag. „Mögulega erum við farin að sjá til lands,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is, sem vildi að öðru leyti lítið tjá sig um gang viðræðna. 

Fjöldafundur í Digraneskirkju þegar verkfall hefst

Um helgina náðust samningar milli Eflingar og ríkisins. Sólveig segir samningnum fylgja svigrúm til að ná fram sérstakri kjaraleiðréttingu á borð við þá sem Efling hefur krafist gagnvart Reykjavíkurborg. Viðræðum um slíka leiðréttingu og um önnur samningsatriði við Reykjavíkurborg er ekki lokið en Sólveig segir að enn eigi eftir að ná saman um fleiri atriði. 

„Við munum halda áfram því samtali og þeirri vinnu sem hófst fyrir fullri alvöru, loksins, um helgina,“ segir Sólveig um fundinn sem hefst klukkan 13. Fjöldafundur verður haldinn klukkan hálfeitt í safnaðarheimili Digraneskirkju fyrir félagsmenn sem þá leggja niður störf. Sólveig verður viðstödd upphaf hans, áður en hún mætir á fund samninganefndanna. 

Undirritun kjarasamninga BSRB hefur ekki áhrif á viðræðurnar

Sex kjarasamningar aðildarfélaga BSRB og viðsemjenda þeirra voru undirritaðir í nótt. Verkfalli um 15.000 félagsmanna BSRB var þannig afstýrt. Sólveig Anna telur undirritun þessara samninga ekki hafa áhrif á kjaraviðræður Eflingar við borgina annars vegar og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar. 

„Ég lít ekki svo á. Við höfum ekki verið í samflot við þau, þeirra verkfallsaðgerðir áttu að hefjast í dag en eins og allir vita höfum við verið á öðrum stað. Við vorum komin í harðari aðgerðir miklu fyrr og áherslur okkar hafa verið aðrar. En ég óska þeim auðvitað til hamingju með að hafa náð samningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert