Samkomubann verði útbreiðsla hröð

Erum ekki með víðtæk samfélagssmit enn, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra …
Erum ekki með víðtæk samfélagssmit enn, segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um útbreiðslu kórónuveirunnar. Eggert Jóhannesson

„Ég fer að ráðum sóttvarnalæknis og það er hans að gera tillögu til mín í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og meta þessa þætti – það hefur ekki gerst enn,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra spurð að því á hvaða tímapunkti þurfi að huga að því að leggja á samkomubann vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.

Til skoðunar er hjá stjórnvöldum að leggja á bann við samkomum þar sem fjöldi gesta er umfram tiltekið viðmið. Ákvörðun um slíkt bann ræðst af því hversu hröð útbreiðsla kórónuveirunnar er og hver geta heilbrigðiskerfisins er til að sinna sjúklingum á hverjum tíma.

Sums staðar talað um þúsund

„Við höfum verið að ræða það okkar á milli að það kunni að vera rétt að byrja á almennum tilmælum þar sem þessi innanlandssmit eru enn sem komið er að koma beint frá fólki sem hefur verið á þessum skíðasvæðum. Við erum ekki með víðtæk samfélagssmit enn.“

Spurð um fjöldann sem slíkt bann myndi miða við segir Svandís að ýmis viðmið hafi verið rædd og verið sé að horfa til framkvæmdar í nágrannalöndum.

„Sums staðar er talað um eitt þúsund en á öðrum stöðum er talan lægri. Það kæmi einnig til skoðunar hvort það yrði gert í skrefum,“ bætir hún við.

Heildarfjöldi þeirra sem eru smitaðir af kórónuveirunni var í gærkvöldi orðinn 58 eftir að þrjú ný smit greindust í þeim sýnum sem tekin voru úr farþegum sem komu heim með flugi frá Veróna á Ítalíu á laugardag. Tíu af þessum smitum eru innanlandssmit. Fjöldi fólks í sóttkví er 461, þar af eru 410 á höfuðborgarsvæðinu.

Fimm hjúkrunarfræðingar sem starfa á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eru smitaðir af veirunni og eru þeir nú allir í sóttkví. Ákveðið var að grípa til þeirra aðgerða að skipta upp gjörgæsludeildinni og fækka opnum rúmum. Mönnun á deildinni hefur jafnframt verið tryggð.

Umspilsleikur Íslands og Rúmeníu í undankeppni EM karla í knattspyrnu gæti verið leikinn fyrir luktum dyrum komi til samkomubanns. Háskólar munu hefja fjarkennslu ef samkomubann hindrar hefðbundna kennslu, að því er fram kemur í umfjöllun um kórónuveiruna og afleiðingar hennar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka