Samninganefndir Sameykis og ríkisins undirrituðu kjarasamning á sjötta tímanum í húsnæði ríkissáttasemjara. Sameyki hefur því náð samningum við alla viðsemjendur sína.
Samninganefndir Sjúkraliðafélags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga undirrituðu sömuleiðis kjarasamning á sjötta tímanum, sem og bæjarstarfsmannafélög innan BSRB við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.
Sex kjarasamningar aðildarfélaga BSRB við viðsemjendur náðust í nótt og öllum verkföllum um 15 þúsund félagsmanna BSRB sem hófust á miðnætti hefur því verið aflýst.
Fundur samninganefnda Sjúkraliðafélags Íslands og ríkisins er nýhafinn og því hefur verkfallsaðgerðum félagsins gagnvart ríkinu ekki verið aflýst. Verkfalli félagsmanna sem starfa hjá Akureyrarbæ og átti að hefjast klukkan 8:00 hefur verið aflýst þar sem Sjúkraliðafélagið undirritaði samning við Samband íslenskra sveitarfélaga á sjötta tímanum, sem fyrr segir.
Uppfært klukkan 8:35: Samningafundi ríkisins og Sjúkraliðafélags Íslands lauk á áttunda tímanum með undirritun kjarasamnings.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í samtali við mbl.is að um tímamót sé að ræða þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar. Allir samningar sem undirritaðir voru í nótt fela í sér styttingu vinnuvikunnar, sem var stærsta krafa aðildarfélaga BSRB í viðræðunum. Einnig var samið um styttingu vinnutíma dagvinnufólks í allt að 36 stundir á viku og sömuleiðis um styttingu vinnutíma vaktavinnufólks í 36 tíma úr 40, með möguleika á enn meiri styttingu.
„Þetta eru tímamót, vinnutímanum hjá opinberum starfsmönnum hefur ekki verið breytt í fimmtíu ár og það var áherslan að við ætluðum að stuðla að auknum lífsgæðum fólks og auka möguleika á samþættingu fjölskyldu- og einkalífs og þannig stuðla að fjölskylduvænu samfélagi,“ segir Sonja.
Nóttin hefur verið viðburðarrík í karphúsinu. Rétt fyrir miðnætti náðust samningar milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstarfsmanna innan BSRB og á þriðja tímanum samdi Sameyki við Reykjavíkurborg.
Sonja segir að aðildarfélögin telji að þau hafi náð sínum markmiðum í kjarasamningsgerðinni. „Samið var um launalið í samræmi við lífskjarasamninginn sem var krafa þeirra. Til viðbótar er nýr áfangi að héðan af verða allir með 30 daga orlof þannig að sumir bæta við sig sex dögum.“
Enn er ósamið við Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) en sambandið frestaði verkfallsaðgerðum á meðan hættu- eða neyðarstig almannavarna vegna kórónuveiru er í gildi. Sömuleiðis á eftir að semja við Landssamband lögreglumanna og Tollvarðafélag Íslands.
Þá hafa samningar ekki tekist í deilu Eflingar og Reykjavíkurborgar, sem gerðu hlé á samningaviðræðum sínum rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Boðað hefur verið til fundar á ný hjá ríkissáttasemjara klukkan 13 í dag. Ótímabundið verkfall nær 2.000 félagsmanna Eflingar hjá borginni hefur staðið frá 16. febrúar. Í dag hefst verkfall félagsmanna Eflingar í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík.