Einstaklingur sem var tímabundið í Lindaskóla fékk um helgina niðurstöður úr sýnatöku sem leiddu í ljós að hann væri smitaður af kórónuveirunni. Vegna þessa hafa tveir kennarar sem áttu í samskiptum við einstaklinginn verið sendir í sóttkví og er þriðji kennarinn einnig í sóttkví vegna þess að hann var á skíðum í Austurríki. Sá hefur ekki komið í skólann síðan hann kom heim frá Austurríki þar sem hann fór beint í sóttkví.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem barst foreldrum nemenda í Lindaskóla fyrr í dag, en þar kemur fram að ekki sé talin ástæða til að senda fleiri í sóttkví.
„Tveir kennarar áttu samskipti við einstakling sem var hér tímabundið og fékk þær niðurstöður um helgina að hann sé með COVID-19. Umræddur einstaklingur var í skólanum í tvo daga en hafði ekki náin samskipti við nemendur né aðra starfsmenn,“ segir í póstinum.
„Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur haft málið til skoðunar og niðurstaða þeirra er sú að ekki þurfi að senda fleiri í sóttkví skólanum vegna þess. Þriðji kennarinn var á skíðum í Austurríki og fór í sóttkví um leið og hann kom heim.“