Verðum að virða fyrirmæli erlendis

„Það er ekki öruggt að við getum hlutast til um sóttkví eða annað sem fólk gæti lent í erlendis. Við verðum að virða þær aðgerðir og þau fyrirmæli sem erlend stjórnvöld grípa til til að hefta útbreiðslu veirunnar,“ segir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar hjá utanríkisráðuneytinu, en í fyrr í dag var greint frá því að fjórir Íslendingar væru í sóttkví í Víetnam. 

Mikilvægt sé að fólk kynni sér vel málin áður en farið sé í ferðalög erlendis á meðan heimsfaraldur kórónuveirunnar gengur yfir. Í máli hennar kom fram að mikilvægt væri að fólk skráði sig í gagnagrunn ráðuneytisins og að í morgun hefðu 18 einstaklingar sem væru á ferðalagi á Ítalíu skráð sig í grunninn. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að ekki væri ólíklegt að um eitt þúsund Íslendingar væru á skíðum í Ölpunum um þessar mundir.  

Enn fremur lagði María Mjöll áherslu á að mikilvægt væri að kynna sér leiðbeiningar Landlæknis um kórónuveiruna og COVID-19 sjúkdóminn áður en haldið væri í ferðalög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert