„Nei, við merkjum ekki fækkun,“ segir Pálína Magnúsdóttir borgarbókavörður þegar hún er spurð hvort starfsfólk Borgarbókasafnsins hafi orðið vart við minni aðsókn að safninu vegna kórónuveirunnar.
„Við tökum reyndar tölur um hver mánaðamót og það var fjölgun á gestum í febrúar í öllum söfnum,“ segir hún. Safnið var lokað síðastliðinn föstudag vegna starfsdags. Það er á sex stöðum í borginni og rekur að auki bókabíl. Gestir voru tæplega 47 þúsund í janúar samkvæmt mælaborði borgarinnar.
Í Morgunblaðinu í dag segir Pálína að gerðar hafi verið sérstakar ráðstafanir vegna veirunnar og vel sé fylgst með þróun mála. „Fyrir viku ákváðum við að auka þrif á snertiflötum í stofnunum. Auk þess settum við inn á vaktir starfsfólks að yfirfara alla snertifleti að lágmarki tvisvar á dag. Þetta þýðir að við þrífum snertiskjái, hurðarhúna, handrið, takka á póstum, lyklaborð við almenningsvélar og fleira í þeim dúr.“