Innspýting í hagkerfið og lengri greiðslufrestur

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna efnahagslegra …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna efnahagslegra áhrifa af útbreiðslu kórónuveirunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tímabundin niðurfelling gjalda á ferðaþjónustufyrirtæki og svigrúm fyrirtækja sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum til að standa skil á opinberum gjöldum eru meðal þess sem ríkisstjórnin ætlar að grípa til sem viðbragðs til að mæta efnahagslegum áhrifum af útbreiðslu kórónuveirunnar. Voru þær kynntar á fundi í ráðherrabústaðnum nú fyrir hádegi.

Meðal annars er horft til þess að veita fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarerfiðleikum vegna tekjufalls lengri frest til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum. Þá er einnig til skoðunar að fella niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.

Þá verður markaðsátaki hleypt af stokkunum þegar aftur fer að birta til eftir faraldurinn og aðstæður til að kynna Ísland sem áfangastað batna. Sagði Bjarni á fundinum að verulegt fjármagn yrði sett í þennan lið. Þá verður einnig sett af stað átak til að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á fundinum að einnig væri opið fyrir það að grípa til ráðstafana sem örva gætu einkaneyslu, til dæmis með skatta- og stuðningskerfum. Sagði hann að enn ætti þó eftir að útfæra það betur.

Bjarni kynnti einnig að aukinn kraftur yrði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu. Sagði hann nú góðan tíma til að örva framkvæmdastig og að lagt yrði til að farið væri í framkvæmdir á þessu ári sem hafi verið á þriggja ára framkvæmdaáætlun en ekki hafi verið gert ráð fyrir að farið yrði í á þessu ári.

Aukið samstarf við fjármálageirann er einnig ein af aðgerðunum, en Bjarni sagði að samhliða því að ríkið gerði fjármálafyrirtækjum betur kleift að sinna sínu starfi væri krafa um að fjármálafyrirtækin myndu skipuleggja sig þannig að lífvænlegum fyrirtækjum sem skorti lausafé væri fleytt áfram og þeim veitt súrefni til að fara í gegnum erfiða tíma.

Þá er horft til þess að flytja innistæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita lán. Sagði Bjarni að þetta væru um 30 milljarðar.

Fram kemur á vef stjórnarráðsins að faraldurinn muni hafa bein áhrif á atvinnulífið og stöðu ríkissjóðs. Þrátt fyrir að geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann sé ljóst að hagkerfið sé berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér ræðir. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

  1. Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  2. Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  3. Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
  4. Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  5. Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
  6. Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  7. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert