Lægstu laun hækka mest

Á sáttafundi. Samningamenn Eflingar ráða ráðum sínum í Karphúsinu
Á sáttafundi. Samningamenn Eflingar ráða ráðum sínum í Karphúsinu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýir kjarasamningar sem samninganefndir Eflingar og Reykjavíkurborgar undirrituðu í fyrrinótt kveða á um að starfsmenn á lægstu launum fái sérstakar launahækkanir sem eru umfram þær 90 þúsund kr. taxtahækkanir sem kveðið var á um í lífskjarasamningunum á almenna vinnumarkaðnum.

Þessar hækkanir eiga sér einkum stað með leiðréttingum á starfsmati. Samningurinn byggir á lífskjarasamningunum, en byrjunarlaun þeirra sem eru á lægstu laununum hækka um allt að 112.000 kr. skv. upplýsingum Eflingar. Sérgreiðsla til þeirra sem eru í lægstu launaflokkunum getur numið allt að 15 þúsund kr., sem fjarar svo út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum sem nær til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélögum hjá borginni. Aðrir starfsmenn sem njóta einhverra kaupauka á borð við starfsmenn við sorphirðu fá ekki þessar sérgreiðslur. Fram kemur í umfjöllun Eflingar að greiðsla 10 yfirvinnutíma á mánuði til leikskólastarfsfólks er nú tryggð í kjarasamningi í formi nýrrar sérgreiðslu.

Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar, segir að fyrir hafi legið að starfsmenn á lægstu laununum í leikskólum borgarinnar ættu inni hækkanir þar sem þeir hefðu raðast neðar í launum en sambærileg hópar annars staðar og verið sé að leiðrétta það. „Meginmarkmiðið sem aðilar voru sammála um var að hækka sérstaklega lægstu launin og niðurstaða náðist um það,“ segir hún.

Um sé að ræða viðbótargreiðslur eða leiðréttingu upp á 15 þúsund kr. í gegnum starfsmatskerfið sem lagt er til grundvallar í launakerfi borgarinnar. ,,Það er sem sagt verið að flýta leiðréttingum og ekki verið að bíða eftir niðurstöðum starfsmatsendurskoðunar.“

Samkomulagið er að mati Hörpu algjörlega á sömu nótum og borgin hafi lagt upp með og boðið frá upphafi og mjög ánægjulegt sé að nú hafi náðst samningar og búið sé að aflýsa verkföllum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert