Hefur óskað eftir símafundi með Pompeo

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur óskað eftir símafundi með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til að koma á framfæri sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda vegna þeirrar ákvörðunar Bandaríkjamanna að leggja tímabundið bann við ferðum Íslendinga til Bandaríkjanna.

Guðlaugur hefur þegar átt símafund með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem staddur er í Kaliforníu, sem og fund með staðgengli hans hér á landi. Í samtali við mbl.is segir Guðlaugur að þar hafi hann mótmælt ákvörðuninni harðlega og farið fram á að fundin yrði lausn fyrir Ísland sem byggðist annars vegar á  „landfræðilegri legu okkar“ og hins vegar á þeim ákveðnu aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna veirunnar.

Spurður hvort hann telji líklegt að bandarísk stjórnvöld muni taka tillit til þessara sjónarmiða, segir Guðlaugur að það verði einfaldlega að koma í ljós. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna okkar málstað fylgi, bæði þar sem snýr að Bandaríkjamönnum og annars staðar.“

Spurður hvort frekari aðgerðir til að koma til móts við efnahagslífið verði til umræðu á ríkisstjórnarfundi í hádeginu, segist Guðlaugur telja það liggja í augum uppi. „Þetta er verkefni sem ríkisstjórnin tekur mjög alvarlega. Og það er líka gott að heyra þann tón í stjórnarandstöðunni sem ég tel vera mikilvægan, að menn sýni samstöðu svo við vinnum okkur út úr þessari tímabundnu stöðu,“ segir Guðlaugur og bætir við: „Eini kosturinn við þetta mál er að það er tímabundið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert