Læknanemar sáttir við aðgerðir skólans

Síðastliðnar vikur hafa stjórnvöld í Slóvakíu haft stíft eftirlit á …
Síðastliðnar vikur hafa stjórnvöld í Slóvakíu haft stíft eftirlit á flugvöllum og landamærum, frá því áður en fyrsta smit greindist hér í landi. Samgöngubann hefur verið lagt á ferðalög til og frá áhættusvæðum og ber öllum sem koma frá áhættusvæði að fara í 14 daga sóttkví að viðlagðri sekt. Myndin er tekin í Bratislava, höfuðborg Slóvakíu. AFP

Íslenskir læknanemar sem stunda nám við Jessenius-deild læknavísinda í háskólanum Comenius í Martin í Slóvakíu, deild sem var á mánudaginn lokað vegna kórónuveirunnar, segjast ánægðir með það hvernig stjórn skólans hefur staðið að málum í kjölfar faraldursins. Í viðtali sem birtist á mbl.is á þriðjudag sagðist nemi við deildina ósáttur við takmarkað upplýsingaflæði. Eitt smit hefur greinst í Martin.

Hrafnhildur Hallgrímsdóttir og Gunnar Þorgeir Bragason, læknanemar sem stunda nám við skólann, segja í yfirlýsingu að læknanemar sem stundi nám í Slóvakíu berjist enn við fordóma. Sömuleiðis segjast þau sátt við viðbrögð stjórnvalda vegna veirunnar. 

Við, sem stundum nám í læknisfræði við Jessenius-háskólann í Martin í Slóvakíu, viljum að gefnu tilefni taka fram að við erum mjög sátt við það hvernig stjórn skólans okkar hefur staðið að málum í kjölfar COVID-19 faraldurs. Við teljum að þar hafi fagmennska og ábyrgð ráðið för og einhverjar sögusagnir um annað eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Stjórn skólans okkar hefur þvert á móti staðið vel að málum, sent fjöldann allan af póstum og boðið bekkjarfulltrúum á fundi til að svara spurningum. Þá hefur Bojanka, einn kennara okkar, verið sérstaklega dugleg að koma upplýsingum á framfæri á Facebook-síðu fyrir nemendur og einnig svarað persónulegum spurningum.“

Mikið í mun að halda námsáætlun

Eins og áður segir eru nemendurnir ánægðir með aðgerðir stjórnvalda í Slóvakíu og telja að þær séu ekki takmarkaðri en þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa beitt.

„Smit kom fyrst upp hér í Slóvakíu sl. föstudag og eru smit nú fjórum dögum síðar einungis sjö talsins en yfir 500 sýni hafa reynst neikvæð, svo það virðist sem skimun sé nokkurn veginn á pari við það sem er heima.“

Tanja Elín Sigurgrímsdóttir, nemi á sjötta ári í læknisfræði, setti sig einnig í samband við mbl.is vegna þessa. 

„Það sem liggur mörgum nemendum helst á hjarta er hvort þessar aðgerðir hafi áhrif á próftöku og útskrift. Skólastjórinn hefur nú þegar tilkynnt að þeim er mikið í mun að halda námsáætlun og að hvorki sé stefnt á að fresta útskrift né prófum svo lengi sem yfirvöld leyfa skólahald.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert