Samningar náðust ekki á fundi Eflingar og samninganefndar sveitarfélaga í gær, en Félagsmenn Eflingar sem sinna ýmsum störfum í Kópavogi, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Hveragerðisbæ og sveitarfélaginu Ölfusi hafa verið í ótímabundnu verkfalli frá því á mánudaginn.
Álfhólsskóli, Salaskóli og Kársnesskóli í Kópavogi ákváðu í gær að skólarnir skyldu vera lokaðir í dag. Þá raskast skólahald einnig í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Skólarnir hafa ekki verið þrifnir frá því á mánudaginn og þarf því að fella niður kennslu þar til samningar nást.
Efling setur fram þær kröfur að sambærileg leiðrétting og hefur nást í samningum við Reykjavíkurborg verði samþykkt hjá sveitarfélögunum. Samkvæmt Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, hefur verið boðað til fundar að nýju klukkan 15 í dag. Til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar munu aðeins tveir aðilar frá hvorri samninganefnd taka þátt í viðræðunum í Karphúsinu.