„Sýningin heitir Níu líf og við erum með átta leikara sem túlka líf Bubba á sviðinu, en sá níundi er svo Bubbi sjálfur, uppi í Kjós með súrdeigsbrauð og bros á vör,“ segir Ólafur Egill Egilsson höfundur og leikstjóri sýningarinnar Níu líf sem Borgarleikhúsið frumsýnir á Stóra sviðinu í kvöld kl. 20.
Sýningin byggist á ótrúlega fjölbreyttu lífshlaupi tónlistarmannsins Bubba Morthens og leikur tónlist hans eðlilega stórt hlutverk í uppfærslunni. Leikararnir átta eru Rakel Björk Björnsdóttir sem er Ungi-Bubbi, Aron Már Ólafsson Gúanó-Bubbi, Björn Stefánsson Utangarðs-Bubbi, Hjörtur Jóhann Jónsson Edrú-Bubbi, Esther Talia Casey Ástfangni-Bubbi, Jóhann Sigurðarson Góðæris-Bubbi, Valur Freyr Einarsson Sátti-Bubbi og Halldóra Geirharðsdóttir Egó-Bubbi. Blaðamaður Morgunblaðsins settist niður með Halldóru og leikstjóranum fyrr í vikunni til að heyra um tilurð sýningarinnar.
„Ég hef oft heyrt að Óli sé mikill listamaður, en hef aldrei unnið með honum áður. Ég get staðfest það að hann er alveg einstakur,“ segir Halldóra og bendir sem dæmi á hversu vel Ólafi Agli takist að halda í öll „kreatívu elementin“ sem notuð eru á litlum leiksviðum nú þegar hann er að vinna sína fyrstu sýningu fyrir Stóra sviðið.
„Það eru mín forréttindi að fá að vinna með svona frábæru listafólki eins og þér Dóra mín. Þú ert einstök. Náttúruafl og töfrabarn, foss og fjall í einum pakka,“ svarar Ólafur Egill einlægt áður en við dembum okkar í djúpar umræður um aðferðarfræði leikhússins.
„Á litlu sviði er oft auðveldara að hafa sýninguna opna fyrir hugmyndum allra í leikhópnum og svigrúm til að prófa ólíkar hugmyndir. Við tókum það vinnulögmál með okkur inn í þessa sýningu, sem ég held að sé stundum erfitt að framkvæma í svona stórum sýningum þar sem allt er þyngra í vöfum og flóknara tæknilega. Í mínum huga var það hins vegar algjört möst af því að að þau eru öll Bubbi. Þau eru sýningin og þá verður sýningin líka að spegla þau og þeirra tengingu við Bubba til þess að þetta verði alvöru, hafi eitthvað vægi fyrir okkur og þar með áhorfendur,“ segir Ólafur Egill.
Lengri gerð viðtalsins við Ólaf Egil og Halldóru má lesa á mbl.is hér.