„Fengið takmarkaðar upplýsingar um ferlið“

Turninn í Kópavogi.
Turninn í Kópavogi. mbl.is/Árni Sæberg

Eik fasteignafélag hefur mótmælt því að skimunin vegna kórónuveirunnar fari fram í Turninum í Kópavogi.

Félaginu hefur ekki tekist að fá þá sem standa að henni til að halda hana frekar í öðru húsnæði, að því er kemur fram í tölvupósti félagsins til leigutaka.

„Að auki hefur félagið haft samband við sóttvarnarlækni, án þess að hafa erindi sem erfiði. Félagið hefur fengið takmarkaðar upplýsingar um ferlið og það mjög seint,“ segir í tölvupóstinum.

Getur ekki stöðvað skimunina

Þar segir að skimunin fari fram á grundvelli leyfa frá stjórnvöldum og að fasteignafélagið sé því ekki í aðstöðu til að stöðva skimunina, enda fari hún fram í rými sem sé m.a. leigt undir móttöku þátttakenda í vísindarannsóknum.

„Félagið hefur gripið til ráðstafana sem miða að því að draga úr smithættu vegna skimunarinnar. Eins og félagið hefur upplýst um áður hefur tíðni þrifa verið aukin, sprittskömmturum verið komið fyrir og hreingerningarfyrirtæki hreinsar helstu snertifleti daglega,“ segir í tilkynningunni.

Heilbrigðisstarfsmenn í Turninum í morgun.
Heilbrigðisstarfsmenn í Turninum í morgun. Ljósmynd/Jón Gústafsson/ÍE

Öryggisverðir standa við inngang

Unnið er að því að skipta upp lyftum þannig að fólki sem fer í skimun verði beint í tvær lyftur á fyrstu hæð sem ganga bara upp á fjórðu hæð þar sem skimað er. Hinar þrjár lyfturnar þjóni öðrum hæðum. Þá muni öryggisverðir standa við inngang á annarri hæð og beina þátttakendum niður á fyrstu hæð.

„Sem fyrr hvetjum við leigutaka að brýna fyrir starfsfólki sínu mikilvægi handþvottar og sótthreinsunar handa. Þá er rétt að beina til starfsfólks að nota aðra innganga en inngang á 1. hæð.“

Einnig kemur fram í póstinum að upplýsingafundur hafi verið haldinn klukkan 14 í dag með starfsmönnum hússins í mötuneytinu á 19. hæð og átti Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, að svara spurningum. Þess var óskað að sérhver leigutaki sendi fulltrúa. 

Uppfært 16:30

Fyrirsögn fréttarinnar var breytt þar sem félagið vill taka fram að það sé ekki mótfallið skimunum né að hún fari fram í húsnæðinu. Heldur er félagið ósátt við að hafa ekki fengið upplýsingar fyrr og haft með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert