Fyrsta „viðspyrnufrumvarpið“ samþykkt á þingi

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir frumvarpi á þinginu …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir frumvarpi á þinginu í morgun þar sem heimilar fyrirtækjum að fresta greiðslu á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram fyrr í dag þar sem kveðið er á um að fyrirtæki geti frestað greiðslu á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds. Bjarni kynnti frumvarpið á ríkisstjórnarfundi í gærkvöldi. 

Frumvarpið var samþykkt af öllum viðstöddum þingmönnum, eða 47, en 16 þingmenn voru fjarverandi. Frumvarpið var eina málið á dagskrá þingfundar í morgun. 

Samkvæmt frumvarpinu verður fyrirtækjum veittur mánaðarfrestur á helmingi tryggingagjalds og staðgreiðslu opinberra gjalda sem voru á gjalddaga í mars. Fresturinn er til 15. apríl. Gert er ráð fyrir því að þær lagabreytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu hafi í för með sér seinkun á tekjum ríkissjóðs að fjárhæð 22 milljarðar króna.

Tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar má rekja til samþykktar ríkisstjórnarinnar 10. mars, um markvissar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið.

Á þingfundi í morgun hvatti Bjarni þau fyrirtæki sem ekki þyrftu á greiðslufresti að halda til að standa skil á sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert