Guðlaugur setur heræfingu á ís

Heilbrigðisráðherra og utanríkisráðherra ganga út úr Stjórnarráðinu í gær þar …
Heilbrigðisráðherra og utanríkisráðherra ganga út úr Stjórnarráðinu í gær þar sem ríkisstjórnin fundaði um stöðuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, aflýsti í gær varnaræfingunni Norðurvíkingi sem halda átti hér á landi dagana 20.-26. apríl. Æfingin hefur reglulega farið fram frá árinu 1991 og er hún haldin í samræmi við samkomulag um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

Alls átti um 900 manna herlið frá 11 ríkjum, að langstærstum hluta frá aðildarþjóðum Atlantshafsbandalagsins (NATO), að taka þátt. Guðlaugur Þór  segir að sú staða sem upp sé komin eftir útbreiðslu kórónuveirunnar og einhliða og fyrirvaralausa ákvörðun Bandaríkjanna um ferðabann á ferðamenn frá Íslandi geri það að verkum að ekki séu forsendur til að standa sameiginlega að slíkri æfingu.

„Þegar komið er á ferðabann eru ekki lengur forsendur fyrir svona æfingu. Það sér það nú hver maður,“ segir Guðlaugur Þór í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinnu í dag. „Ferðabann hefur allrahanda afleiðingar.“ Guðlaugur Þór hefur óskað eftir símafundi með utanríkisráðherra Bandaríkjanna vegna ferðabannsins. Mun hann þá koma á framfæri sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda vegna ákvörðunarinnar. Spurður hvenær búast megi við símafundi ráðherranna svarar hann:

„Það er erfitt að segja nákvæmlega til um það, svona hlutir geta oft tekið smá tíma því það er jú mikið að gera hjá okkur öllum. Ég er þó mjög vongóður. Þau samtöl sem ég hef átt við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi og við fulltrúa sendiráðsins voru jákvæð, sem og þau samskipti sem sendiráð okkar úti í Washington hefur haft í tengslum við þetta mál.“

Mikið högg fyrir samfélagið

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var búið að bóka um 600-700 hótelherbergi á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu vegna heræfingarinnar. Þá var einnig búið að bóka fjölmarga bílaleigubíla. Ljóst er að þessar bókanir munu nú ganga til baka. Í samtali við mbl.is segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri á Hótel Keflavík, það vera „gríðarlegt áfall fyrir svæðið í heild“ að búið sé að falla frá Norðurvíkingi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert