Hvetur fyrirtæki til að nýta bótaheimildir

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hugsunin er auðvitað sú að hvetja fyrirtæki til þess að nýta sér þessa heimild vegna þess að við erum öll í þessu saman, bæði þeim átökum sem þarf til þess að takast á við þessa veiru en líka þeim efnahagslegu áhrifum sem þetta hefur,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, um frumvarp um aukinn atvinnuleysisbótarétt sem ríkisstjórnin samþykkti í dag. 

Ef frumvarpið er samþykkt tekur það gildi frá og með sunnudegi en því er ætlað að hvetja fyrritæki til að minnka starfshlutfall starfsfólks tímabundið í stað þess að grípa til uppsagna. Þannig geta fyrirtæki minnkað starfshlutfall starfsfólks og fær starfsfólk þá atvinnuleysisbætur fyrir hluta launa í  staðinn. 

Annað frumvarp Ásmundar var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun, frumvarp vegna launa í sóttkví. Bæði frumvörpin eru hluti af aðgerðum stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónuveiru.

Mælir væntanlega fyrir frumvörpunum á þriðjudag

Spurður hvenær frumvörpin tvö verði tekin fyrir á þinginu segir Ásmundur:

„Það er búið að samþykkja þau bæði í ríkisstjórn og í þingflokkum. Þeim verður dreift á mánudaginn og ég geri ráð fyrir því að mæla fyrir þeim á þriðjudaginn. Engu að síður er þetta með hlutaatvinnuleysisbæturnar þannig upp sett að ákvæði þess taka gildi á sunnudaginn. Það er vegna þess að við viljum að fyrirtæki sem eru að fara yfir sín mál um mánaðamót geti horft til þeirra heimilda sem lagt er upp með þarna.“

Upphaflega ætlaði ríkisstjórnin að nota næstu vikur í að grípa til aðgerða vegna kórónuveirunnar en Ásmundur segir að ákvörðun hafi verið tekin um að flýta þessum tveimur frumvörpum vegna ferðabanns Bandaríkjanna sem hafi gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna.

„Í rauninni vorum við byrjuð að undirbúa fjölþættar aðgerðir til þess að bregðast við atvinnuleysinu og kórónuveirunni og ætluðum að nota næstu viku og þarnæstu í þær aðgerðir. Þegar Bandaríkin lokuðu landinu hafði það mikil áhrif á einu bretti á ferðaþjónustuna svo við ákváðum í gærmorgun að spýta í lófana og fara í þetta bótafrumvarp og klára það þannig að menn hefðu það í farteskinu,“ segir Ásmundur.

Fyrirtæki strax farin að hugsa málið

Að hans sögn eru fyrirtæki nú þegar farin að líta til frumvarpsins um hlutabæturnar.

„Svona verðum við einfaldlega að vinna næstu vikurnar sem þjóð, standa saman og taka hvert verkefni fyrir sig.“

Í dag var frumvarp fjármálaráðherra um frestanir á greiðslum samþykkt nokkuð hratt. Spurður hvort hann búist við því að sömu sögu verði að segja um fyrrnefnd frumvörp segir Ásmundur:

„Ég á von á því að þessi frumvörp gangi tiltölulega hratt í gegnum þingið. Ég hef átt góð samtöl bæði við forseta þingsins og formann velferðarnefndar Alþingis og ég held að stjórn og stjórnarandstaða séu sammála um það að á tímum eins og þessum verðum við að bregðast hratt við þegar á þarf að halda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert