Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag frumvarp félags- og barnamálaráðherra til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera veikir samþykkt í ríkisstjórn. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
Frumvarpið er hluti af aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti fyrr í vikunni til að mæta efnahagslegum áhrifum útbreiðslu kórónuveirunnar hér á landi.
Markmið frumvarpsins er að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, s.s. veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því er stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni. Frumvarpið kemur fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um laun í sóttkví sem birt var 5. mars sl.
Mikilvægt þykir að tryggt verði eins vel og kostur er að sem flestum einstaklingum sé unnt að sæta beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um sóttkví án þess að það komi verulega niður á fjárhag heimilanna.
Frumvarpið tekur til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gilda lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda sínum. Þá gilda lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili.
Skilyrði fyrir greiðslum eru m.a. að launamaður hafi sannanlega verið í sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví. Gilda sambærileg skilyrði fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Vinnumálastofnun annast framkvæmt laganna og skulu umsóknir hafa borist stofnuninni fyrir 1. júlí 2020. Gert er ráð fyrir að hámarksfjárhæðir taki mið af hámarksgreiðslum til launamanna úr Ábyrgðasjóði launa miðað við heilan almanaksmánuð. Er þannig gert ráð fyrir að hámarksgreiðsla vegna hvers dags sem einstaklingur sætir sóttkví sé um 21.100 þúsund krónur, en almennt er gert ráð fyrir að sóttkví vari í 14 daga.
Ekki liggur fyrir hvenær frumvarpið verður lagt fram á þingi en búast má við að það verði fyrr en seinna.