Starfsfólki brugðið vegna skimana

Turninn á Smáratorgi er hægra megin á myndinni.
Turninn á Smáratorgi er hægra megin á myndinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsmaður í Turninum í Kópavogi segir að mörgu fólki sem þar starfar hafi verið brugðið við fregnir um að skimanir vegna kórónuveirunnar ættu að hefjast þar í morgun.

Skimanirnar hófust klukkan 10 og fara þær fram á fjórðu hæð þar sem Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna er til húsa.

„Þetta var alltaf mjög óljóst. Þegar það kom upp að Kári [Stefánsson] ætlaði að fara í þetta fóru yfirmennirnir hjá okkur að spyrja húsfélagið og athuga hvað væri að gerast,“ segir Hafsteinn Róbertsson, tæknimaður hjá DK, en mörg hundruð manns starfa í Turninum.

Ekkert kom í ljós fyrr en um ellefuleytið í gærkvöldi þegar tölvupóstur barst frá yfirmanni um að búið væri að ákveða að skimanir færu fram í húsinu og að þær skyldu hefjast strax morguninn eftir.

Heilbrigðisstarfsmenn í Turninum í morgun.
Heilbrigðisstarfsmenn í Turninum í morgun. Ljósmynd/Jón Gústafsson/ÍE

Undrandi á nándinni

„Fólki var svolítið brugðið að það væri búið að ákveða að gera þetta miðað við hvað er búið að fjalla um hversu smitandi þessi vírus er,“ segir Hafsteinn. Sameiginleg rými eru bæði í kjallara og á annarri hæð, auk þess sem sameiginlegt mötuneyti er á 19. hæð. Hann undrar sig á nánd starfsmanna við þá sem mögulega eru smitaðir af veirunni.

Öllum starfsmönnum var boðið að vinna heiman frá sér í dag og er Hafsteinn einn þeirra. Hann vonast til komast í vinnu eftir helgina og segist hafa heyrt að skimanirnar verði mögulega færðar annað.  

Uppfært kl. 11.43:

Þess skal geta að fólki sem á bókaðan tíma er bent á að nota inngang á fyrstu hæð þar sem  sérstakur starfsmaður tek­ur á móti því og beinir í rétta átt, eins og kom fram í tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu fyrr í morgun. Bent er á að enginn samgangur er á milli fólks. 

„Flest­ir sem koma í skimun hafa aldrei fundið fyr­ir ein­kenn­um og eru því lík­lega ekki smit­andi. Það sama á við alla starfs­menn í hús­inu, hvort sem þeir starfa við skiman­ir eða ekki. Það er því ekki meiri hætta á ferðum í hús­inu en ann­ars staðar í borg­inni þar sem fólk kem­ur sam­an,“ sagði í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert