Íslenska flugfélagið Atlanta mun hætta öllu farþegaflugi sínu tímabundið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Flugfélagið leigir stærsta viðskiptavini sínum, Saudi Arabian Airlines, sjö Boeing 747-400 breiðþotur í blautleigu svokallaðri.
Vonast er til að þoturnar fari aftur í loftið í maí. Atlanta mun áfram sinna fraktflugi milli Afríku og Evrópu og milli Bandaríkjanna og Evrópu.
Baldvin Már Hermannsson, forstjóri Atlanta, segir að fyrirtækið verði fyrir verulegu tekjutapi vegna málsins. Síðustu daga sé búið að fella niður þúsundir flugferða vegna veirunnar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Baldvin að með þessu vilji Sádi-Arabar reyna að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar.