Enginn á Aldrei fór ég suður

Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður.
Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri Aldrei fór ég suður. mbl.is/Hallur Már

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin með óhefðbundnu sniði nú um páskana vegna samkomubannsins sem lagt hefur verið á. Hátíðin hefur verið haldin á Ísafirði ár hvert frá 2004, en mun nú fara fram án áhorfenda. Tónleikunum verður þess í stað streymt í opinni dagskrá á netinu.

Kristján Fr. Halldórsson, rokkstjóri og einn umsjónarmanna hátíðarinnar, segir að ákvörðunin hafi verið tekin í gær þegar skipuleggjendur stóðu frammi fyrir því að þurfa annars að aflýsa eða fresta hátíðinni. GDRN, Auður, Bríet, Helgi Björns, Hermigervill, Moses Hightower og VÖK eru meðal þeirra tónlistarmanna sem eru á dagskrá hátíðarinnar. Hann segir að haft hafi verið samband við flesta þá tónlistarmenn sem til stóð að træðu upp á hátíðinni og þeir hafi tekið vel í hugmyndina.

Stemning á Aldrei fór ég suður í fyrra.
Stemning á Aldrei fór ég suður í fyrra. Ljósmynd/Ásgeir Þrastarson

Aðgangur að hátíðinni hefur alltaf verið ókeypis, og á því verður að sjálfsögðu engin breyting þótt hátíðin færist á netið. Kristján segir að eftir eigi að útfæra framkvæmdina nákvæmlega en stefnt er að því að tónleikastaðir verði tveir, Ísafjörður og Reykjavík, og öllu svo streymt heim í stofu. Verður það þá í fyrsta sinn sem hátíðin fer suður.

Aðspurður segir Kristján að hátíðin hafi verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið síðustu ár. Nákvæmur fjöldi gesta síðustu ára er ekki á hreinu, enda ekki selt á tónleikana, en talið er að allt að 5.000 manns leggi leið sína vestur á firði í dymbilviku. „Auðvitað er það mikið högg að missa hátíðina úr bænum en ég held að þetta sé besta lausnin. Að reyna að gera gott úr þessu og bjóða áfram upp á vestfirska menningu,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert