Engir tónleikar á svölunum

Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari.
Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari. Eggert Jóhannesson

Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari, sem er í sóttkví á heimili sínu í Garðabæ, velti því í léttu tómi fyrir sér í pistli á Facebook í vikunni hvernig hann gæti bætt sér upp tekjutapið.

„Það mætti svo sem halda útitónleika af svölunum. Ég fékk m.a.s. hljóðkerfi í jólagjöf og gæti því haldið uppi stemningu í öllu Akurhverfinu. Í versta falli myndu nágrannarnir borga mér fyrir að hætta,“ skrifaði hann. 

Söngvarinn hlær þegar þetta er borið undir hann. „Ég get fullvissað þig um að þessari hugmynd verður ekki hrint í framkvæmd. En við þessar aðstæður getur verið gott að stytta sér stundir með léttu gríni. Við megum ekki tapa gleðinni.“

Bjarni er í lausamennsku og fær því ekki greidd laun í sóttkvínni. Hann er nýkominn heim frá Ítalíu, þar sem hann var að æfa óperu í Parma sem síðan var frestað vegna kórónuveirunnar. „Það er ókosturinn við lausamennskuna; atvinnuöryggið er ekki nægilega mikið. Við aðstæður sem þessar, þegar sýningum er frestað vegna ytri aðstæðna, ber óperuhúsinu ekki að greiða okkur laun. Við vorum hins vegar búin að vera í þrjár vikur við æfingar, þannig að mögulega verður komið eitthvað til móts við okkur. Það á eftir að koma í ljós.“

Næstu verkefni hjá honum eiga að vera í Þýskalandi og Japan í vor en Bjarni er ekki bjartsýnn á að af þeim verði. „Ég á ekki von á því að mikið verði um tónleikahald og óperusýningar á næstunni.“

Nánar er rætt við Bjarna Thor í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert