Fjöldi af bæjum, líklega frá landnámi fram til um 1000, hefur komið í ljós á myndum, sem teknar voru úr dróna í Holtum og Landsveit í Rangárþingi ytra, milli Þjórsár og Ytri Rangár.
Á fyrirlestri á vegum Þjóðminjasafnsins í vikunni greindi Árni Einarsson, fornvistfræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, frá því að hann teldi sig hafa greint 43 víkingaaldarskála á 35 stöðum á þessu svæði. „Þarna er um forkönnun að ræða, en ef þetta reynist allt rétt þá eru þetta talsverð tíðindi,“ segir Árni í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að það sem einkenni þessa skála sé að húsin séu einföld, flest um 20 metra löng og þau stærstu 30 metrar að lengd. Þau virðist án viðbygginga sem hafi komi síðar til sögunnar.
„Húsin eru eins og hreinræktaðir víkingaaldarskálar af elstu gerð,“ segir Árni. „Við bæinn Árbakka, sem byggðist út úr Snjallsteinshöfða, eru þrír stórir fornaldarskálar. Þarna er bæjarstæði með útihúsum og görðum í kring í raun þorp með öllu sem tilheyrir.“ Byggðin hafi á fyrstu öldum verið mun þéttari á þessum slóðum en síðar varð.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.