Fordæmalaust bann

Vart hefur orðið við að fólk hafi sótt í matvöruverslanir …
Vart hefur orðið við að fólk hafi sótt í matvöruverslanir undanfarna daga til að safna að sér birgðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríkisstjórn Íslands boðaði í gær samkomubann sem taka á gildi á miðnætti aðfaranótt mánudags. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir fordæmalaust ástand kalla á fordæmalausar aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Vart hefur orðið við að fólk sæki í verslanir til að birgja sig upp af matvælum og ýmsum nauðsynjavörum. Sendu Hagar og Krónan frá sér tilkynningar í gær þar sem tekið var fram að birgðastaða verslana, vöruhúsa og birgja hérlendis væri góð.

Ljóst er þá að meira af lyfjum hefur verið afgreitt út úr apótekum en alla jafna. Alma D. Möller landlæknir og Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segja engan vott um yfirvofandi skort á matvælum.

Íslensk erfðagreining hóf skimanir fyrir veirunni í gær og sagði Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, að vonast mætti eftir fyrstu niðurstöðum í kvöld.

Landamærum Danmerkur verður lokað frá og með hádegi í dag, nema fyrir þeim sem sýnt geta fram á að þeir eigi þangað mjög brýnt erindi. Icelandair flýgur daglega 2-3 ferðir til og frá Kaupmannahöfn og hefur félagið leitað eftir ítarlegri upplýsingum frá dönskum stjórnvöldum.

Ríkisstjórnin samþykkti í gær tvö frumvörp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um aukinn atvinnuleysisbótarétt og laun fólks sem sætir sóttkví samkvæmt fyrirmælum yfirvalda. Ráðherrann segist búast við að mæla fyrir frumvörpunum á þriðjudag.

Gengi hlutabréfa á helstu mörkuðum tók víða stökk upp á við í gær eftir afar slæman fimmtudag, þann versta í bandarísku kauphöllinni síðan árið 1987. S&P 500-vísitalan hækkaði um rúmlega níu prósent í gær, sem er mesta hækkun vísitölunnar frá árinu 2008. Hækkunin vestanhafs kom að mestu fram í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann hefði samið við forstjóra stórra einkafyrirtækja þar í landi um aðstoð við skimanir fyrir kórónuveirunni.

Forsetinn lýsti einnig opinberlega yfir neyðarástandi, en yfirlýsingin leysir úr læðingi milljarða bandaríkjadala úr fjárhirslum ríkissjóðs sem nýst geta í baráttunni gegn faraldri veirunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka