Utanríkisráðuneytið ráðleggur Íslendingum sem staddir eru í Póllandi og vilja komast heim að fara landleiðina akandi yfir landamærin til Þýskalands eða annarra nágrannaríkja Póllands, þar sem hægt er að komast í millilandaflug. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Almenningssamgöngur í Póllandi hafa að mestu leyti lagst af, sem og alþjóðlegar flugsamgöngur, en lestarferðir munu liggja niðri frá miðnætti í kvöld.
Í ljósi þeirra yfirgripsmiklu ráðstafana sem erlend ríki hafa gripið til til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar hafa stjórnvöld ráðið Íslendingum frá ferðum til útlanda og hvatt Íslendinga á ferðalagi til að íhuga að flýta heimför. Er það meðal annars gert vegna landamæralokana, sem ýmis ríki hafa gripið til síðustu daga, þar með talið Bandaríkin, Noregur, Danmörk, Rússland og Pólland. Segir í tilkynningu stjórnvalda að ekki sé hægt að útiloka að fleiri ríki grípi til svipaðra ráðstafana á næstu dögum.