Landamærum Danmerkur verður lokað frá og með hádegi í dag og verður öllum aðvífandi vísað frá landinu nema þeir geti sýnt fram á að þeir eigi þangað mjög brýnt erindi. Mette Frederiksen, forsætisráðherra landsins, lýsti þessari ákvörðun yfir í gærkvöldi.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði engar breytingar enn hafa verið gerðar á flugáætlun félagsins þegar mbl.is ræddi við hana í kjölfar ávarps Frederiksen. Tvær flugferðir til og frá Kaupmannahöfn voru þá á áætlun hjá Icelandair í dag, fyrir hádegi og eftir hádegi.
„Við erum ekki komin með nánari upplýsingar um það hvernig ferðabanninu verður framfylgt. Við verðum bara að taka stöðuna þegar við erum komin með nánari upplýsingar og spila þetta eftir eyranu áfram,“ sagði Ásdís.
Icelandair flýgur tvisvar til þrisvar til Kaupmannahafnar og til baka daglega. Flugfélagið hefur óskað eftir ítarlegri upplýsingum frá dönskum stjórnvöldum vegna lokunar landamæranna. „Það hefur bara sinn gang en við erum ekki komin með nákvæmar upplýsingar um það hvernig þessu verði framfylgt.“