Guðmundur Magnússon
„Seðlar og mynt eru augljós smitleið fyrir margar tegundir sýkla, þar á meðal nýju kórónuveiruna. Því minni snerting, því betra. Því er ávallt betra að nota aðrar greiðslulausnir, eins og t.d. snertilausar greiðslur.“
Þetta segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að þurfi menn að nota reiðufé sé skynsamlegt að hreinsa hendurnar fyrir og eftir að maður handleikur seðla og mynt.
„Sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa hvatt til þess að viðskiptavinum verslana og stofnana verði gert kleift að nota snertilausar greiðslur í meiri mæli en áður, en höfum við fengið einkar góð viðbrögð við þeirri hvatningu,“ segir Kjartan.
Seðlar skipta mjög oft um hendur og þeir geta því borið bakteríur og veirur á milli manna. Þetta hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnun, WHO, staðfest nýlega, en hún hefur enn ekki viljað tjá sig sérstaklega um seðlasmit í tengslum við kórónuveiruna. Stofnunin segist almennt ráðleggja fólki að þvo hendur sínar eftir að það hafi meðhöndlað seðla og gæta þess að snerta ekki andlit sitt áður. Sérstaklega sé þetta brýnt ef fólk sé að fara að neyta matar eftir handfjötlun peningaseðla.
Stefán Jóhann Stefánsson á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans sagði við Morgunblaðið að spurningum um mögulega útbreiðslu veiru með hlutum sem fólk hefði snert væri best að vísa til þeirra stofnana sem væru sérhæfðar á slíku sviði. Hvorki Seðlabankinn né viðskiptabankarnir hafa gefið út sérstakar ráðleggingar eða tilmæli til almennings vegna notkunar reiðufjár í tengslum við veirufaraldurinn.