Alls hafa 163 tilfelli kórónuveirunnar verið greind hér á landi. Um 1.800 sýni hafa verið tekin á veiru- og sýklafræðideild Landspítalans. Þrír hafa verið lagðir inn á Landspítala vegna veirunnar, þar af er einn á gjörgæslu. Sjúklingarnir eru á sextugs- og sjötugsaldri. Tveir hafa verið útskrifaðir sem áður voru innlagðir.
Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi almannavarna í Skógarhlíð rétt í þessu. Aðeins tvö ný sýni hafa því greinst síðan í gærkvöld. Á þriðja þúsund eru í sóttkví.
Flest sýnanna tengjast skíðasvæðum í Evrópu en 23% tilfella eru með óþekkta smitleið. Þórólfur vekur athygli á því að rúmlega helmingur þeirra sem hafa greinst hafa verið í sóttkví. Hann segir það benda til að aðgerðirnar sem almannavarnir hafa ráðist í séu að skila árangri þar sem þessir einstaklingar hefðu annars verið úti í samfélaginu og mögulega smitað.