Alls fóru í kringum 1.090 manns í skimun fyrir kórónuveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í dag. Um 500 manns komu í sýnatöku á föstudag og 1.049 í gær. Samtals hafa 1.222 sýni verið greind og þar af voru níu jákvæð. Það þýðir að tíðni sýkinga í þýðinu er 0,73%.
Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og bætir við að hann yrði ekkert hissa á því að prósentan lækkaði aðeins því líklegt sé að þeir sem komu fyrst í skimun hafi verið hræddir um að þeir hafi verið smitaðir.
Fengin hafa verið sýni frá rúmlega 2.500 einstaklingum og reiknar Kári með því að í lok morgundagsins verði búið að skima þau öll.
Búið er að raðgreina sýni úr tveimur einstaklingum og er annað úr svokölluðum S-stofni frá vesturströnd Bandaríkjanna og hitt úr L-stofni frá Evrópu en sá stofn er skæðari. Telur Kári líklegt að hann sé frá Ítalíu.
Þar sem veiran hefur ekki náð meiri dreifingu en raun ber vitni hérlendis reiknar Kári með að Íslensk erfðagreining haldi áfram að skima til að búa til upplýsingar fyrir sóttvarnalækni til að skipuleggja aðgerðir til að halda veirunni í skefjum.
„Markmiðið er að minnka dreifingu. Samkvæmt útreikningum manna úti í heimi smitar hver sýktur að meðaltali tvo einstaklinga. Markmiðið er að ná því niður í einn eða minna og ef það næst er möguleiki á að sýkingin hverfi og að þetta hætti að breiða úr sér. Aðferðin til að ná því svona niður er að finna leið til að rekja sýkinguna mjög hratt og koma mönnum í sóttkví eins snarlega og hægt er,“ greinir hann frá og segist handviss um að við höfum besta fólk í heimi til að gera það.
Hann segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart hversu veiran hefur breiðst lítið út og það búi til möguleika til að koma í veg fyrir að hún breiðist út víðar. „Ég veit að teymið í kringum Þórólf [Guðnason sóttvarnalækni] og Ölmu [Möller landlækni] er að velta fyrir sér nýstárlegum aðgerðum til að gera slíkt,“ segir hann og nefnir að það hafi einnig komið sér á óvart að annað af sýnunum tveimur sem voru raðgreind hafi verið af S-stofni. Hélt hann að grafa þyrfti dýpra til að finna það.
Kári segir það spennandi að sjá hvernig samfélagið sé að þjappa sér saman til að bregðast við veirunni og segir „ótrúlega gaman að fylgjast með krökkunum niðri í Íslenskri erfðagreiningu sem vinna nótt og nýtan dag til að sinna þessu verkefni án þess að nokkur hafi rekið þau til þess og án þess að búast við nokkru öðru en þeirri umbun sem menn fá af því að leggja af mörkum til síns samfélags. Hið sama á við um fólkið uppi í þjónustumiðstöð.“
Hann vonar að samheldnin skili sér áfram inn í samfélagið þegar búið er að leggja veiruna að velli og að „við hættum að vera þetta efnishyggjusamfélag og verðum samfélag sem leyfir sér að sýna að því þykir vænt um aðra“.