Flestir þekkja rithöfundinn Einar Kárason, sem skrifað hefur bækur í áratugi við góðan orðstír. Færri þekkja þó manneskjuna á bak við rithöfundinn. Morgunblaðið leitaði því til dóttur hans, Kamillu Einarsdóttur, sem fetað hefur í fótspor föður síns. Hún gaf út bókina Kópavogskróniku, en leikverk skrifað upp úr bókinni var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 14. mars.
Hún var nítján merkur þegar hún fæddist og alltaf mjög hraust. Hún var mjög bráðþroska, svakalega skapgóð og hafði alltaf góða matarlyst sem krakki. Henni fannst allur matur góður, nema hafragrautur, það hefur hún frá mér,“ segir Einar Kárason um dóttur sína Kamillu sem skírð er eftir móður hans.
Einar og kona hans Hildur Baldursdóttir eiga fjórar dætur, Þórunni, Kamillu, Hildi Eddu og Júlíu Margréti og er Kamilla önnur í röðinni. Hildur Edda er fædd aðeins einu og hálfu ári á eftir Kamillu og urðu þær að vonum nánar.
„Þær voru næstum eins og tvíburar. Kamilla svaraði alltaf fyrir þær báðar. Hún sagði alltaf „við“, og „okkur finnst“. Stundum sagði hún „okkur finnst þetta ekki gott,“ en svo kom kannski í ljós þegar sú yngri var tíu ára að henni þótti þetta alveg gott. Hún var mjög passasöm og góð við hana og auðvitað stjórnaði öllu. Það gerðist einu sinni að eitt fimm ára hrekkjusvín var að stjaka við þeirri litlu úti á leikvelli á leikskólanum. Þá kom Kamilla eins og rautt strik, en hún var í rauðum anorak, og réðst á drenginn þannig að sá á honum. Þegar foreldrar hans komu að sækja drenginn var hann kominn með glóðarauga. Þau spurðu hvað hefði komið fyrir og var bent á þessa litlu rúmlega tveggja ára ljóshærðu og bláeygðu stúlku,“ segir hann kíminn.
Einar segir að Kamilla hafi átt auðvelt með nám en hafi oft látið annað ganga fyrir. „Hún tók sér pásu frá MH; það var of mikil lausung þarna í svona áfangakerfi. En svo fór hún aftur og kláraði og fór svo í háskólann.“
Hvernig manneskja er hún núna, sem fullorðin?
„Hún er glaðlynd og skemmtileg. Mér finnst hún ekkert hafa breyst, alltaf sama týpan, orðheppin og launfyndin. Hún er svakalega snögg til svars, og á það til að segja eitthvað óviðeigandi. Ég hlæ mig stundum alveg máttlausan. Ég hef mikinn húmor fyrir því. Hún er skemmtileg blanda af kæruleysi og samviskusemi. Hún hefur aldrei haft neinn sérstakan áhuga á að eignast hluti eða græða pening. En hún passar að hlutirnir séu í lagi og borgar sína reikninga.“
Nú kom Kópavogskrónika út fyrir einu og hálfu ári. Var hún eitthvað að ráðfæra sig við þig?
„Nei. Ég frétti bara að hún væri að semja við útgáfufyrirtæki. En þetta kom mér ekki á óvart. Ég vissi ekkert um hvað bókin væri; vissi bara titilinn,“ segir Einar og viðurkennir að hann hafi verið forvitinn.
„Mér fannst bókin mjög skemmtileg. Sama ár gaf litla systir hennar Júlía út Drottninguna af Júpíter og ég Stormfugla.“
Þannig að hún er að feta í þín fótspor, bjóstu við því?
„Það kom mér ekki á óvart. Það var einn höfundur sem ég átti og las allan, Charles Bukowski, og Kamilla var líka mjög upptekin af honum og spændi hann allan í sig. Ég sá áhrif þaðan. Hann vann um tíma sem póstur og gaf út bók sem hét Post Office. Ég held að það hafi verið ástæðan fyrir því að hún var að vinna hjá póstinum einn vetur þegar hún tók pásu í menntó. Svo fór hún að vinna sem dyravörður á skemmtistað og barþjónn á nektarklúbbi. Ég var alltaf með það á hreinu að þetta væri partur af því að búa til bakgrunn fyrir höfundinn.“
Hvernig pabbi var hann?
„Ótrúlega ljúfur. Ég auðvitað fattaði það ekkert alltaf sem barn og unglingur en þegar ég eltist þá skildi ég hvað ég var heppin,“ segir hún.
„Okkur fannst hann auðvitað leiðinlegur þegar hann var að segja okkur að taka til og svona, eða vildi ekki kaupa Cocoa Puffs daglega,“ segir hún og hlær.
„Mamma og pabbi drógu okkur með í ferðalög út um allt, en þau voru kornung þegar við vorum orðnar þrjár. Svo spilaði pabbi fyrir okkur tónlist. Þegar ég var unglingur fannst mér foreldrar mínir hallærislegasta fólk í heimi,“ segir Kamilla og nefnir að móðir hennar, Hildur Baldursdóttir, vinni á bókasafni og faðir hennar sé rithöfundur, eins og alþjóð veit.
„Þess vegna finnst þeim svo fyndið núna að ég skuli búa í næsta húsi við þau í Hlíðunum og ég eigi fullt af dætrum og kött og vinni á bókasafni og skrifi bækur. Það er bara eins og ég hafi hermt allt eftir þeim!“ segir Kamilla og hlær.
Kamilla segir pabba sínum vera mjög annt um bæði börn og dýr. „Honum finnst börn og lítil dýr það skemmtilegasta í heimi. Ef hann fengi að velja myndi hann aldrei umgangast annað. Við höfum alltaf átt ketti og stundum páfagauka, fiska og annað. En hann er kattaóður. Núna þegar við systurnar erum orðnar stórar eru kettirnir búnir að taka við. Hann á núna tvo ketti og hann hefur miklu meiri áhyggjur af þeim en okkur. Ef hann fer til útlanda hringir hann þrisvar á dag í okkur allar til að athuga hvort bunan sé rétt.“
Blaðamaður hváir. Bunan?
„Já, sko, kettirnar drekka bara úr baðkarinu, þannig hann þarf að láta renna rétta bunu fyrir þá. Þetta er auðvitað það sem þau hafa vanið kettina á og þeir fá þessa þjónustu. Hann vaknar nokkrum sinnum á nóttinni til að tékka hvort bunan sé ekki hárrétt. Hann situr og stendur eins og kettirnir vilja. Hann segir til dæmis að læðan vilji leggjast á mjög ákveðinn hátt og á ákveðnum tíma dags á teppi í sófanum. Þetta er rosalegt ofdekur. Þetta er verra en að vera með þrjú ungbörn. Enda vill enginn passa þessa ketti, þeir eru svo erfiðir og ofdekraðir. En okkur finnst þetta bara fyndið. Svo erum við allar með ketti nema elsta systir mín fór í hundana,“ segir hún.
Hvernig var það þegar þú varst krakki að eiga pabba sem var rithöfundur?
„Þegar ég var lítil þá öfundaði ég krakka sem áttu pabba sem var í vinnunni. Krakka sem gátu farið og heimsótt pabba á skrifstofuna. Eitt árið vann hann sem formaður Rithöfundasambandsins og það var æðislegt! Loksins áttum við almennilegan pabba eins og hinir krakkarnir,“ segir hún og hlær.
„Ég man að ég þurfti oft að útskýra af hverju pabbi væri ekki í vinnu. Lengi vel héldum við, og margir, að hann væri að laga ritvélar. Hann var alltaf inni í herbergi að vesenast með ritvélar þannig að við systur lögðum bara saman tvo og tvo,“ segir Kamilla sem hélt þá lengi vel að faðir sinn væri ritvélaviðgerðarmaður.
„Við sögðum vinum okkar það. Svo komst það upp þegar foreldrar vina okkar hringdu og báðu hann um að laga einhverja brauðrist eða eitthvað. Þá höfðum við sagt að pabbi væri svona helvíti lunkinn. Hann sem getur ekki lagað neitt. Hann getur varla skipt um peru. Hann er alveg laus við handlagni. Hann í alvöru hringir í mig til að biðja mig um að skipta um peru. Ég hef í alvöru aldrei séð hann gera við neitt, nema hann teipar stundum hluti sem brotna saman,“ segir Kamilla og brosir.
Nú er pabbi þinn góður rithöfundur, er honum fleira til lista lagt?
„Góð spurning. Hann er alla vega ekki góður dansari. Mamma dró hann einu sinni á samkvæmisdansanámskeið og það var það hræðilegasta sem nokkur hafði séð. Honum finnst hann, eftir ákveðið magn af bjór, mjög góður söngvari. Ég er ekki viss um að aðrir myndu taka undir það,“ segir hún.
Hvernig karakter er hann?
„Í rétta félagskapnum er hann rosa hress og elskar athygli og segir sögur. Þá er völlur á honum. En hann er ekki svona hvar sem er og er ekkert fyrstur til að heimta orðið. Ég þekki hann sem pabba og finnst hann mjög umhyggjusamur. Hann er sá fyrsti sem ég myndi hringja í ef mig vantaði eitthvað úti í apóteki eða eitthvað, hann væri alltaf til í að skutla mér,“ segir Kamilla en það kemur svo í ljós að hún er ekki með bílpróf.
„Hann er rosalega óþolinmóður. Stjarnfræðilega. Ég virðist hafa erft það því miður. En á móti kemur að við erum bæði svakalega stundvís,“ segir hún.
Er pabbi þinn mikill sögumaður?
„Já, já. Hann segir sumar sögur oft. Svo segir hann oft bara sömu lélegu brandarana. Hann segir hræðilega pabbabrandara. Ég hef reynt mikið að venja hann af þessu en það gengur illa. Honum finnst sjálfum þeir vera fyndnir. Og ef hann fær ekki viðbrögð segir hann kannski brandarann fjórum sinnum af því að hann heldur að maður hafi ekki heyrt í fyrstu skiptin; það er alveg skelfilegt. Svo finnst honum rosa fyndið að þykjast labba á hluti og detta. En hann á betri húmor sem hann dregur upp spari,“ segir hún.
Ítarlegt viðtal við Einar og Kamillu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.