„Þetta eru hráar niðurstöður“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/​Hari

Búið er að greina 6-700 sýni Íslenskrar erfðagreiningar vegna kórónuveirunnar og eru niðurstöður á þá leið að um 1% hefur greinst með veiruna, eða 6-7 sýni. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Sóttvarnalæknir mun fá upplýsingar um fólk sem greinst hefur jákvætt og verður því tilkynnt það með símtali.

Aðspurður segir Kári ljóst að þeir sem séu hræddir um að bera veiruna séu líklegri til að gangast undir skimun. Þá sé talið að veiran sé algengari meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en landsbyggðar, og þeir fyrrnefndu líklegri til að gera sér ferð suður í Kópavog í skimun. Þetta kalla fræðimennirnir valbjögun (e. selection bias).

„Þetta eru hráar niðurstöður og í þeim felst engin túlkun,“ segir Kári og bætir við aðspurður að Íslensk erfðagreining hafi engar forsendur til að gefa út öryggisbil fyrir hlutfall smitaðra.

Starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar tóku 1.049 sýni í gær og segist Kári gera ráð fyrir að búið verði að greina þau öll áður en sól sest í kvöld. Áður hefur verið greint frá því að markmið ÍE sé að taka 1.000 sýni á dag til að geta betur kortlagt útbreiðslu veirunnar. Spurður hvort hann hvetji fólk til að koma og gefa sýni segir Kári: „Ég hvet fólk ekki til neins en þetta stendur fólki til boða.“ Bætir hann þó við að fólk í sóttkví megi ekki koma enda væri það lögbrot. Þá sé fólk með einkenni veirunnar hvatt til að hafa samband við heilsugæslu.

Eliza Reid forsetafrú mætti í skimun til Íslenskrar erfðagreiningar á …
Eliza Reid forsetafrú mætti í skimun til Íslenskrar erfðagreiningar á föstudag, rétt eins og Guðni Th. Jóhannesson forseti. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert