„Ferðamönnunum finnst þetta alveg magnað. Og í raun alveg ótrúlegt,“ segir Garpur Ingason Elísabetarson leiðsögumaður um stórt hvalshræ sem rekið hefur á land í Reynisfjöru. „Fólk streymir að til að berja hann augum og finnst þetta spennandi.“
Hann segist fyrst hafa séð hvalinn í fjörunni síðasta fimmtudag, en meðfylgjandi myndir tók hann nú í hádeginu.
Megna stækju stafar af hvalnum að sögn Garps. „Það er ansi mikill fnykur,“ segir hann en bætir við að búið sé að stinga göt á hræið. „Þannig að hann ætti ekkert að fara að springa. Það er því þokkalega óhætt að nálgast hann.“
Aðspurður segir Garpur að hvalurinn sé tiltölulega ofarlega í flæðarmálinu. Ólíklegt sé að greipar Ægis hrifsi hann aftur á brott í bráð.