Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir skýringuna á því af hverju misvísandi upplýsingar hafa komið fram um það hve mikið einkennalausir geti smitað aðra þegar þeir hafa sýkst af kórónuveirunni vera að við séum hægt og rólega að átta okkur á því hvernig þessi tiltekna veira hagar sér. Ekki hafi gefist langur tími til að rannsaka veiruna og sífellt séu að koma fram nýjar upplýsingar.
Hann sagði í þættinum Í Bítið á Bylgjunni í morgun að flest benti til þess að 40 prósent þeirra sem smituðu aðra væru einkennalaus. Þegar fyrstu smitin komu upp hér á landi sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hins vegar að hann teldi einkennalausa ekki smitandi. Síðar hefur hann þó sagt að einkennalausir séu ólíklegri til að smita aðra, en það geti vissulega gerst.
„Fólk sem er einkennalaust, en gæti verið smitað, við teljum að það fólk sé ekki smitandi, það ætti ekki að smita út frá sér með því að fara í flug eða í gegnum Keflavíkurflugvöll,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi í gær.
„Menn eru að læra hægt og hægt á þessa veiru. Við sitjum á þessari eyju sem er tiltölulega lítil og erum að læra. Þegar ég segi að 40 prósent einkennalausra smiti þá er það fólk sem fær síðan einkenni. Magnið af vírus í nefkoki á fólki er mest til að byrja með í sýkingunni, þá eru menn ansi smitandi,“ útskýrir Kári í samtali við mbl.is.
Hann segir þessa tölu, 40 prósent, meðal annars fengna úr breskum rannsóknum. „Það eina sem skiptir máli er að gera sér grein fyrir því að áður en menn verða lasnir þá smita þeir. Sem gerir það að verkum að það er mjög mikilvægt að geta náð í skottið á þeim sem hafa verið í snertingu við þá sem eru sjúkir. Rekja þá sem hafa komið nálægt þeim sem sýkjast.“
Kári segir kórónuveiruna, sem veldur COVID-19, ekki frábrugðna öðrum veirum að því leyti að fólk sé oft smitandi áður en það finnur fyrir einkennum sjúkdóma sem veirurnar valda. „Menn eru svo misnæmir fyrir einkennum. Sumum finnst þeir vera hraustir þó þeir séu komnir með hita, aðrir mega ekki einu sinni hugsa um lasleika og þá leggjast þeir í rúmið.“
Þá setji fræðimenn fram ýmiskonar kenningar eins og gengur og gerist. Og sumar þeirra reynist rangar. „Vitlausasta kenningin af þeim öllum var samt mín kenning um að þetta væri búið að breiða sér víða í samfélaginu, en um leið og við fórum að fá gögn þá kom í ljós að þessi kenning reyndist vera vitlaus. Gögnin eru sífellt að auðmýkja mann. Það þýðir ekkert að rífast við gögnin.“